Stúlkan sem sat ein í bílnum

Ólöf svarar nafninu Lóa.
Ólöf svarar nafninu Lóa.

Ólöf Þorbjörg Pétursdóttir, átján ára þroskaskert stúlka og íbúi í Reykjavík, var sótt í skólann um hádegibil í dag, miðvikudag, af bílstjóra á vegum ferðaþjónustu fatlaðra. Því næst var henni ekið að Hinu húsinu í miðbæ Reykjavíkur þar sem hún átti að dvelja næstu klukkustundir.

Hins vegar skilaði hún sér ekki inn í húsnæðið heldur sat hún í bifreiðinni þegar henni var ekið af stað aftur. Um sjö klukkustundum síðar fannst hún í læstri bifreiðinni, enn spennt í belti. Hér á eftir fara þær upplýsingar sem liggja fyrir um málið núna:

Þroskaskert og getur lítið tjá sig

Það var klukkan sjö í kvöld, miðvikudagskvöld, sem tilkynning frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst fjölmiðlum. Þar kom fram að leitað væri að Ólöfu Þorbjörgu sem er þroskaskert og getur lítið sem ekkert tjáð sig. Síðast hafði sést til hennar í Pósthússstræti 3 – 5 við Hitt húsið um kl. 13.

Björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu voru kallaðar út og beindist leitin fyrst og fremst að miðbæ Reykjavíkur. Í tilkynningu sem barst frá Landsbjörgu kl. 19.14 kom fram að Ólöfu hefði verið ekið frá skóla að Hinu húsinu en kl. 16 í dag hefði uppgötvast að hún var ekki þar sem hún átti að vera.

Þegar klukkan var sex mínútur gengin í níu kvöld barst tilkynning frá lögreglu um að Ólöf Þorbjörg væri fundin heil á húfi og leit hefði verið afturkölluð.

Taldi sig hafa séð á eftir stúlkunni

mbl.is ræddi við Valgarð Valgarðsson aðalvarðstjóra í kjölfar ábendingar um að stúlkan hefði fundist í læstri bifreið á vegum ferðaþjónustu fatlaðra. Sagði hann að talið væri að Ólöf hefði verið í bílnum frá kl. 13 í dag, eða í um sjö klukkustundir.

Valgarður sagði einnig að bílstjórinn teldi sig hafa séð á eftir stúlkunni fara út úr bílnum. Valgarður kvaðst ekki vita hvenær bílnum var lagt eða hvort fleirum hefði verið ekið með bílnum eftir að Ólöf átti að fara með honum en ekki væri um stóran bíl að ræða. Þá sagðist Valgarður ekki hafa upplýsingar um hvort Ólöf hafi setið eða legið í sætinu er hún fannst.

Að sögn Valgarðs var ákveðið að leita í bílnum eftir að leit að Ólöfu hófst og farið var að skoða alla möguleika.

Gagnrýnir starfsfólk Hins hússins

mbl.is ræddi einnig við Sigtrygg Magnússon, framkvæmdastjóra All Iceland Tours, sem ekur fyrir ferðaþjónustu fatlaðra. Að sögn hans var það bílstjóri á vegum fyrirtækisins sem ók Ólöfu Þorbjörgu frá Fjölbrautarskólanum í Ármúla að Hinu húsinu í dag. Venjulega ekur hann sjálfur en annar bílstjóri ók fyrir hann í dag vegna anna. Þess má  geta að samkvæmt heimildum mbl.is vantaði tólf bílstjóra í akstursþjónustuna í dag.

Sigtryggur segir bílstjórann hafa sótt átta ungmenni í FÁ á bifreið sem rúmar 16 farþega. Fara þurfti með hópinn í tveimur ferðum inn í Hitt húsið þar sem lyftan tekur aðeins fjóra í einu. Ólöf átti að fara með seinni hópnum og hafi því sannarlega farið út úr bílnum en hlaupið inn í hann aftur og líklega falið sig á bak við öftustu sætin í bifreiðinni, að hans sögn.

Eftir að bílstjórinn fór frá Hinu húsinu ók hann með fjölda fólks en varð ekki var við Ólöfu. Að lokum lagði hann bílnum fyrir utan heimili sitt og fannst Ólöfu ekki fyrr en honum barst símtal um leitina og hann athugaði bílinn.

Sigtryggur gagnrýnir starfsfólk Hins hússins fyrir að hafa ekki aðstoðað bílstjórann en sjálfur hafi hann margoft hringt og beðið um aðstoð. Þá hafi hann verið búinn að láta vita að Ólöf ætti það til að hlaupa í burtu.

mbl.is hefur ítrekað reynt að ná sambandi við forstöðumann Hins hússins til að leita viðbragða við málinu en án árangurs. Upplýsingafulltrúi Reykjavíkurborgar kvaðst ekki geta veitt upplýsingar um málið.

Ekki hefur því komið fram af hverju starfsfólk Hins hússins tók ekki eftir því að Ólöf Þorbjörg skilaði sér ekki í húsið í dag. 

Segir dóttur sína ekki kunna að losa belti

mbl.is ræddi við Pétur Gunnarsson, föður Ólafar í kvöld og sagði hann lýsingar Sigtryggs á atburðarás dagsins ekki standast skoðun. Meðal annars gæti ekki staðist að Ólöf hefði farið út úr bílnum og hlaupið upp í hann aftur, líkt og Sigtryggur sagði. Ólöf kann ekki og hefur aldrei losað sig úr öryggisbelti. Þá getur hún heldur ekki spennt öryggisbelti sjálf. 

Að sögn Péturs hófst leit að Ólöfu um kl. 17, þegar hún skilaði sér ekki heim, en hún átti að dvelja í Hinu hús­inu frá 13-16. Pét­ur seg­ir ferðaþjón­ust­una mis­lengi að skila krökk­un­um af sér, það velti á um­ferðarþunga, en kl. 17 hafi fjöl­skylda henn­ar farið að undr­ast um hana.

Um það leyti var haft sam­tal við bíl­stjór­ann, að sögn Pét­urs, en hann full­yrti að Ólöf hefði farið út við Hitt húsið. Pét­ur seg­ir að þrátt fyr­ir að leit stæði yfir, hefði bíl­stjór­inn ekki farið út í bíl að kanna málið, fyrr en lög­regla mætti heim til hans skömmu fyr­ir klukk­an 20. Þá hafi Ólöf verið búin að sitja í bif­reiðinni fyr­ir utan heim­ili hans í myrkri og kulda í nærri þrjá tíma.

Pét­ur seg­ir enn frem­ur að það stand­ist ekki sem Sigrygg­ur seg­ir, að dótt­ir hans hafi átt það til að hlaupa burt. All­ir sem þekki Lóu, eins og hún er kölluð, viti að hún hlaupi aldrei burt. „Aldrei,“ ít­rek­ar hann.

Báðu stúlkuna og fjölskyldu hennar afsökunar

Strætó bs. sendi frá sér tilkynningu rétt eftir klukkan tíu í kvöld og var Smári Ólafsson, sviðsstjóri akstursþjónustu fyrirtækisins skráður fyrir tilkynningunni. Þar sagði meðal annars að hörmulegt atvik hefði átt sér stað, starfsfólk Strætó harmi það meira en orð geti lýst og var stúlkan og fjölskylda hennar beðin afsökunar. Málið er til rannsóknar.

mbl.is hefur ítrekað reynt að ná sambandi við Smára í kvöld en án árangurs. 

Elsa Lára Arnardóttir, þingkona Framsóknarflokksins, óskaði í kvöld, miðvikudagskvöld, eftir aukafundi í velferðarnefnd Alþingis vegna þeirra alvarlegra mála sem komið hafa upp í tengslum við ferðaþjónustu fatlaðra.

Á Facebook-síðu Halldórs Halldórssonar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins kemur fram að málið verði rætt í borgarráði á morgun að beiðni fulltrúa flokksins. 

Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, segir á Facebook að hún hafi óskað eftir því að borgarstjórinn í Reykjavík komi á hennar fund vegna málsins.

Ferðaþjónusta fatlaðra var endurskipulögð um áramótin.
Ferðaþjónusta fatlaðra var endurskipulögð um áramótin. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Hitt húsið er staðsett í Pósthússtræti 3-5.
Hitt húsið er staðsett í Pósthússtræti 3-5.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert