Útreið borgarinnar sögð hrakleg

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Minnihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur lýsti áhyggjum af því að borgin hafi komið verst út úr þjónustukönnun 19 stærstu sveitarfélaga landsins á fundi borgarstjórnar í gær. Sjálfstæðismenn sögðu útreið borgarinnar hraklega en Framsóknarmenn segja athyglisvert að miðborgarbúar séu óánægðastir með þjónustuna.

Í bókun sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram á fundi borgarstjórnar í gær var athygli vakin á því að höfuðborgin lenti í neðsta sæti þegar Capacent spurði um þjónustu grunnskóla, leikskóla, sorphirðu og aðstöðu til íþróttaiðkunar.

„Þetta er niðurstaða þjónustukönnunar sem byggir á spurningum sem lagðar voru fyrir borgarbúa og íbúa annarra sveitarfélaga. Reykjavíkurborg lendir einnig í neðsta sæti þegar spurt er um þjónustu sveitarfélagsins í heild sinni. Að mati borgarbúa er sú þjónusta sem veitt er í borginni óviðunandi og alls ekki sambærileg við þá þjónustu sem veitt er í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu,“ segir í bókun sjálfstæðismanna.

Framsóknarmenn og flugvallarvinir bókuðu einnig miklar áhyggjur sínar af niðurstöðu þjónustukönnunarinnar.

„Þá er athyglisvert að í þjónustukönnun eftir hverfum borgarinnar eru íbúar miðborgarinnar mest óánægðir með skipulagsmálin af íbúum borgarinnar. Þá kemur skýrt fram í könnuninni að þátttakendur telja að brýnast sé að bæta samgöngumálin í borginni,“ segir í bókun þeirra.

Meirihlutinn hafnaði því að veita afbrigði til að hægt yrði að taka til umfjöllunar tillögu sjálfstæðismanna um að haldnir yrðu opnir fundir í hverfum borgarinnar þar sem farið yrði yfir þjónustukönnunina. Tillagan hefði komið of seint fram en borgarfulltrúum flokksins væri í lófa lagið að leggja hana fram fyrir næsta fund borgarstjórnar.

Fyrri frétt mbl.is: Reykjavík rekur lestina

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert