Staðgöngumæðrun tekin fyrir í febrúar

Starfshópur velferðarráðuneytisins um undirbúning frumvarps til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni hefur skilað tillögum sínum að frumvarpi til ráðherra. Samkvæmt upplýsingum mbl.is er stefnt að því að heilbrigðisráðherra leggi frumvarpið fram fyrir mánaðarmót.

„Við fengum ýmsar ábendingar sem við tókum tillit til svo það hafa orðið nokkrar breytingar,“ segir Dögg Pálsdóttir, formaður starfshópsins. „Við hættum við að láta frumvarpið verða tímabundið og settum inn endurskoðunarákvæði þess í stað auk þess sem við skerptum á ýmsum skilyrðum.“

Segir hún fjölmargar umsagnir hafa borist til nefndarinnar, aðallega frá ýmsum félögum og samtökum en einnig frá einstaklingum. „Allar voru ábendingarnar gagnlegar. Við fórum ítarlega yfir þær allar og tókum tillit til sumra en ekki annarra, eins og gengur í þessari vinnu,“ segir Dögg og bætir því við að hópurinn hafi verið mjög samstíga.

„Auðvitað vitum við alveg að það eru ýmsir á móti lögleiðingu staðgöngumæðrunar. Það kom fram í sumum ábendingunum að helst kysi viðkomandi að staðgöngumæðrun yrði ekki leyfð en eins hvernig viðkomandi vildi að fyrirkomulagið yrði, væri það lögfest,“ segir hún. Hún segist ekki sjá ástæðu til að benda sérstaklega á þá aðila sem hafi talað gegn frumvarpinu. Hún segist hafa verið mjög ánægð með umsagnarferilinn og að hópurinn sé þakklátur fyrir þær fjölmörgu umsagnir sem bárust enda hafi þær reynst mjög gagnlegar.

Frumvarpið er nú í kostnaðarmati í Fjármálaráðuneytinu og einnig er beðið eftir umsögn skrifstofu löggjafarmála í Forsætisráðuneytinu. Það ferli tekur allt frá tveimur og upp í fjórar vikur og að því yfirstöðnu getur heilbrigðisráðherra lagt frumvarpið fyrir Alþingi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert