Er áfengi eins og kex og brauð?

Er áfengi eins saklaust og kex og brauð?
Er áfengi eins saklaust og kex og brauð? mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Áfengi-engin venjuleg neysluvara! var titill málþings IOGT á Íslandi, sem haldið var í Norræna Húsinu í morgun. Var málþingið haldið í kjölfar umræðu um áfengisfrumvarpið, sem er nú til umfjöllunar á Alþingi. Ef frumvarpið verður að lögum verður m.a. hægt að selja áfengi í matvöruverslununum.

Fyrstur í pontu var heimsspekingurinn  Róbert. H. Haraldsson, meðlimur IOGT á Íslandi.

Sagðist Róbert eiga sér tvær skoðanir þegar það kæmi að áfengisfrumvarpinu. Sú fyrri er að núverandi stefna íslenskra stjórnvalda, þar sem áfengi er aðeins selt í ríkisverslunum og bannað sé að auglýsa áfengi, fari ekki í bága við hugsjónirnar um frelsi einstaklingsins. „Við Íslendingar höfum greiðan og jafngreiðan aðgang að áfengi. Við erum frjálsir til að neyta þess kjósum við það,“ sagði Róbert. 

Seinni skoðun Róberts er að það megi ekki tengja nútímann og aukið aðgengi að áfengi saman.

 „Við megum ekki setja samansem merki á milli nútímans og síaukið aðgengi að áfengi. Þeirri skoðun er oft hreyft ef þjóðríki er nútímalegt er líklegra að áfengi sé selt í matvöruverslunum og að það sé næstum því kjánalegt að berjast gegn því að nútíminn komi.“

Að sögn Róberts stenst það ekki skoðun. „Mörg af nútímalegustu ríkjum Bandaríkjanna, Kanada og Norðurlandanna leggja miklar skorður gegn sölu áfengis í matvöruverslunum. Lönd eins og Danmörk, Bretlandi og Frakkland hafa fengið að kenna á sinni stefnu sem um munar.“

Róbert spurði sig síðan hvaðan þrýstingurinn um að hefja sölu á áfengi í matvöruverslununum komi. „Svarið blasir við, frá verslunaraðilum og áfengisframleiðendum,“ svaraði hann. 

Bætti hann við að það væru þeir aðilar sem hefðu gríðarlega fjárhagslega hagsmuni af aukinni sölu á áfengi. „Aukið aðgengi þýðir aukin neysla,“ sagði hann. Sagði hann jafnframt að áfengisframleiðendur og verslunaraðilar yrðu í kjöraðstæðum því það væru þeir sem hirtu ágóðan á meðan aðrir standa straum af kostnaðinum sem hlýst, en það eru heimili landsins, atvinnulíf og skattgreiðendur að mati Róberts.

Börn þekkja áfengistegundir betur en ís og kex

Róbert gagnrýndi áfengisiðnaðinn í erindi sínu og áfengisauglýsingar. „Þrýstingur áfengisiðnaðarins birtist oft með sýnilegum hætti en iðnaðurinn lætur líka til sín taka á bakvið tjöldin,“ sagði Róbert.

„Áfengisauglýsingar eru tilraun til að hafa áhrif á samfélagið og auka drykkju á eigin tegund,“ bætti hann við. 

Nefndi hann áfengisauglýsingar í Bandaríkjunum og sagði þær með ólíkindum, sérstaklega í kringum íþróttir. „Sama gildir um Bretland. Rannsóknir sýna að börn þekkja áfengistegundir betri en leiðandi kex og ístegundir,“ sagði Róbert.

Í erindinu kom fram að einn stærsti áfengisframleiðandi heims, Anheuser-Busch, sem framleiðir m.a. bjórinn Budweiser, eyði 1,4 milljörðum bandaríkjadala í auglýsingar á ári. „Eru það 532 milljónir íslenskra króna á dag. Þannig þyrfti tvo daga til þess að halda starfi SÁÁ uppi,“ bætti hann við.

Sagði hann að áfengisauglýsingar flytji leynt og ljóst sama boðskapinn, þ.e. að áfengi sé forsenda þess að maður geti haft gaman, skemmt sér og eignast góða félaga.

Fjallaði Róbert jafnframt um umræðuna sem hefur myndast í samfélaginu í kjölfar áfengisfrumvarpsins. Nefndi hann grein sem birtist í víðlesnu dagblaði eftir konu sem hélt því fram að áfengi væri eins og kex.

„Í annarri grein er áfengi líkt við brauð og í einum leiðara lýst sem ósköp venjulegri vöru,“ sagði Róbert. „Ég spyr hversu mörg þúsund börnum á íslandi skyldi kvíða helgin því foreldrar þeirra keyptu of mikið af kexi?“

Fjórða hvert barn tengist alkóhólisma

Margrét María Sigurðardóttir, Umboðsmaður barna, var næst í pontu. Erindi hennar hét „Þoli illa að fólk drekki í kringum mig“ sem var tilvitnun í barn alkóhólista sem fundaði nýlega með Umbosðmanni barna. Í erindinu kom fram að eitt af hverjum fjórum börnum er nátengt einhverjum með alkóhólisma, hvort sem það sé mamma eða pabbi, frænka eða frændi eða afi eða amma.

Margrét telur það ekki í samræmi við hagsmuni og réttindi barna að auka aðgengi og sýnileika áfengis. „Ef sala áfengis verður leyfð í matvöruverslunum er hætt við að börn eigi auðveldara með að nálgast áfengi. Hverjir eru að vinna í búðunum? Unga fólkið fyrst og síðast,“ sagði Margrét. Var hún sammála Róberti í þeim skilningi að aukið aðgengi leiði til aukinnar neyslu. Sagði hún jafnframt að aukinn sýnleiki áfengis mun stuðla að jákvæðari viðhorfum til áfengis. „Við förum að líta á þetta sem kex og brauð,“ sagði Margrét.

Sagði Margrét frá fundum sínum með börnum alkóhólista. Hitti hún átta ungmenni á aldrinum 14 til 18 ára sex sinnum. Kom fram að börn alkóhólista búi við aukið álag, óöryggi og ófyrirsjáanleika. Sagði Margrét að þau geti orðið fyrir langvarandi áhrifum vegna aðstæðna sinna. „Af umræðu hópsins er ljóst að sumum börnum alkóhólista líður illa í kringum áfengi,“ sagði hún og nefndi nokkur dæmi. Sagðist eitt þeirra þola illa að fólk drekki í kringum sig.  

„Fjórða hvert barn tengist þessu með einhverjum hætti og það er mikilvægt hagsmunamál barna að aðgangur að áfengi verið ekki aukið.“

Málþingið var haldið í Norræna húsinu.
Málþingið var haldið í Norræna húsinu. Ljósmynd/Odd Stefan
Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna.
Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna. Ljósmynd/Odd Stefan
Aðalsteinn Gunnarsson, framkvæmdarstjóri IOGT á Íslandi
Aðalsteinn Gunnarsson, framkvæmdarstjóri IOGT á Íslandi Ljósmynd/Odd Stefan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert