100% hækkun á aukastundum í bílahúsum

Heiðar Kristjánsson

Bílastæðanefnd samþykkti á fundi sínum á föstudag að hækka gjaldskrá í bílahúsum bílastæðasjóðs og stækka gjaldsvæði 1. Tillögurnar eiga enn eftir að fara fyrir Borgarráð sem tekur endanlega ákvörðun um breytingarnar en ekki er ólíklegt að af þeim verði innan fárra mánaða.

Í skammtímastæðum í Kolaporti, á Vesturgötu, í Ráðhúsi og í Traðarkoti mun fyrsta klukkustundin kosta 150 krónur og fyrir hverja klukkustund að henni liðinni bætast við 100 krónur. Verðið nú er 80 krónur fyrir þá fyrstu og 50 krónur fyrir hverja klukkustund sem fylgir. Því er um 100% hækkun að ræða fyrir aukaklukkustundirnar og 87,5% hækkun fyrir þá fyrstu.

Mánaðargjald hækkar 

Mánaðargjald fyrir langtímastæði í öllum bílahúsum Bílastæðasjóðs hækkar einnig.

Mest verður hækkunin í Ráðhúskjallaranum og Vesturgötu en þar hækkar verðið um 1.300 krónur. Verð á neðri hæð Bergstaða hækkaði um 1.100 krónur en verðið á efri hæðinni hækkaði um 700 krónur. Þá var 800 króna hækkun í Kolaportinu og Traðarkoti en einnig var 700 króna hækkun í Stjörnuporti. Gjaldskrá í langtímastæði verður því framvegis sem hér segir.

Bergstaðir efri hæð kr. 6.300
Bergstaðir neðri hæð kr. 9.900
Kolaport kr. 7.200
Ráðhús kr. 11.900
Stjörnuport kr. 6.300
Traðarkot kr. 7.200
Vesturgata kr. 11.200
Vitatorg kr. 4.500

Í rökstuðningi Kolbrúnar Jónatansdóttur á gjaldskrárbreytingartillögunni sem lögð var fyrir bílastæðanefnd segir að bílahúsin hafi lengi verið rekin með tapi.

„Gjaldskrá bílahúsanna vegna skammtímastæða hefur verið óbreytt í rúm 13 ár og tap hefur verið á rekstri bílahúsa sjóðsins árum sama. Tapið hefur dregist lítillega saman með hagræðingu og betri nýtingu á skammtímastæðum,“ segir í rökstuðningnum.

Gjaldsvæði 1 breiðir úr sér

Gjaldsvæði 1 mun stækka umtalsvert og verður framvegis afmarkað af Hverfisgötu, Rauðarárstíg, Grettisgötu, Klapparstíg og Skólavörðustíg. Amtmannsstíg, Lækjargötu, Vonarstræti, Tjarnargötu, Kirkjustræti, Aðalstræti, Vesturgötu, Grófin, Tryggvagötu og Geirsgötu. Þá verður Túngata gjaldsvæði 1 frá Aðalstræti upp að Garðastræti.

„Eftir því sem almenn gjaldskylda breiðist út er meiri eftirspurn eftir bílastæðum sem eru næst gjaldsvæði 1. Markmiðið með breytingunni er að beina langtímanotendum bílastæða við götukanta á ódýrari svæði við jaðar miðborgarinnar. Breyting þessi hefur ekki áhrif á handhafa íbúakorta,“ segir í rökstuðningi framkvæmdastjóra.

Rauði og brúni liturinn sýnir hvernig gjaldsvæði 1 liggur nú …
Rauði og brúni liturinn sýnir hvernig gjaldsvæði 1 liggur nú en sá bleiki sýnir hvernig það mun líta út eftir breytinguna.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert