Rannsókn flugslyssins enn í gangi

Björgunarsveitarmenn hreinsa til á akbraut Bílaklúbbs Akureyrar og hlutar úr …
Björgunarsveitarmenn hreinsa til á akbraut Bílaklúbbs Akureyrar og hlutar úr flugvélaflakinu fjarlægðir til rannsóknar eftir slysið. Skapti Hallgrímsson

Endanleg skýrsla rannsóknarnefndar samgönguslysa um flugslysið sem varð á Akureyri um verslunarmannahelgina árið 2013 er enn ekki tilbúin. Bráðabirgðaskýrsla um slysið kom út sama haust. Stjórnandi rannsóknarinnar segir hana enn í gangi og ekki sé óalgengt að rannsóknir slysa taki þennan tíma. 

Tveir menn létust þegar sjúkraflugvél Mýflugs brotlenti við rætur Hlíðarfjalls 5. ágúst 2013. Um borð í vélinni voru flugstjóri, flugmaður og sjúkraflutningamaður frá slökkviliði Akureyrar. Flugvélin var á heimleið úr sjúkraflugi frá Reykjavík og voru flugmennirnir í öðru aðflugi að Akureyrarflugvelli þegar vélin skall á akbraut Bílaklúbbs Akureyrar við Hlíðarfjall.

Að sögn Þorkels Ágústssonar, stjórnanda rannsóknarinnar hjá rannsóknarnefnd flugslysa, er ennþá verið að vinna í henni. Mörg verkefni hafi verið á borði nefndarinnar í fyrra en ekki sé óalgengt að rannsóknir slysa taki sinn tíma. Bráðabirgðaskýrslan kom út 2. október 2013.

Hann vill ekki tjá sig um einstaka þætti rannsóknarinnar og þorir ekki að segja til um hvenær endanlegrar skýrslu sé að vænta. Vonandi verði þó ekki löng bið á því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert