Mikilvægt að ekki skapist friðhelgi

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari. mbl.is/Ómar

Sakfelling Hæstaréttar á stjórnendum og eigendum Kaupþings í Al Thani málinu hefur vakið athygli erlendra fjölmiðla og er sagt frá dómnum til dæmis á vefsíðu Daily Mail, Global Post og Reuters.

Er rætt við sérstakan saksónara, Ólaf Þór Hauksson í umfjöllun Reuters sem segist viss um að dómurinn muni senda skýr skilaboð og skapa umræðu.

„Þetta mál sendir skýr skilaboð sem mun skapa umræðu. Það sýnir að þessi mál geta verið erfið, en geta einnig sýnt árangur,“ sagði Ólafur. 

Kemur fram í greininni að ekki hafi allar rannsóknir á bankahruninu 2008 sýnt árangur en bent er á að framganga Íslands í þessum málum ætti að vera fyrirmynd bæði Bandaríkjanna og Evrópulandanna. 

Sagt er frá  því að erfitt hafi verið að skipa einhvern í stöðu sérstaks saksóknara og hvernig Ólafur var hvattur um að sækja um eftir að enginn hafi sent inn umsókn eftir að starfið var auglýst. 

Ólafur segir að það sé engin friðhelgi á Íslandi þegar það kemur að fjármálasvikum og glæpum. 

„Af hverju ætti hluti af samfélaginu að vera laus við ábyrgð? Það er hættulegt þegar einhver er of stór til þess að rannsaka, það gefur til kynna að það sé friðhelgi,“ sagði Ólafur. 

Umfjöllun Reuters í heild sinni má sjá hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert