Vita ekki hvað unglingarnir sofa lítið

Smærri rannsóknir benda til þess að Íslendingar sofi allt of …
Smærri rannsóknir benda til þess að Íslendingar sofi allt of lítið. Ætlunin er að afla frekari gagna um svefnvenjur landsmanna með nýrri og umfangsmikilli rannsókn. mbl.is

Margir foreldrar verða hissa þegar þeir komast að því hversu lítið unglingarnir þeirra sofa. Tækjanotkun að næturþeli er eitt af því sem hefur áhrif á svefnvenjur unglinga, að sögn Erlu Björnsdóttur, sálfræðings. Hópur fræðimanna við Háskóla Íslands hefur nú sent út spurningalista um svefnvenjur til 10.000 Íslendinga.

Listinn var sendur til einstaklinga tíu ára og eldri sem valdir voru af handahófi af öllu landinu nú í janúar. Hann er hluti af umfangsmikilli rannsókn á svefnvenjum Íslendinga. Könnunin verður endurtekin í júní til að leiða í ljós hvort að einhver munur sé á svefnvenjum í skammdeginu og þegar birtan er allsráðandi.

„Við viljum bara fá góða mynd af því hvernig Íslendingar sofa. Við erum að spyrja um fjölmarga þætti. Við spyrjum náttúrulega ítarlega um svefnvenjur, bæði á virkum dögum og um helgar. Við spyrjum um alls kyns þætti sem við teljum að geti tengst svefninum, eins og lífsstíll, andleg og líkamleg heilsa, tækjanotkun, alls kyns sjúkdómar, lyfjanotkun og annað slíkt,“ segir Erla.

Smærri kannanir hafa gefið vísbendingar um að Íslendingar sofi alltof lítið og stór hluti þeirra, allt að fjórðungur, sofi sex tíma eða skemur á sólahring. Rannsóknir hafa sýnt að ef fólk sefur svo stutt að staðaldri geti það haft mjög slæmar afleiðingar fyrir heilsuna, að sögn Erlu. Mikilvægt sé að fá góð gögn um þetta.

Yngra fólk náttúrulega meiri „B-manneskjur“

Hópurinn hefur einnig áhuga á að vita hvort að það skipti máli fyrir svefn Íslendinga að munur sé á milli sólar- og staðarklukku. Í smærri rannsóknum séu vísbendingar um að Íslendingar fari seinna að sofa en aðrar þjóðir en þeir þurfi samt sem áður að vakna á sama tíma. Mikið af ungu fólki sérstaklega eigi erfitt með að vakna á morgnanna og brotfall úr framhaldsskólum sé hátt.

Tækjanotkun af ýmsu tagi er þó annar stór áhrifavaldur á svefnvenjur, ekki hvað síst yngra fólks. Erla segir að hormónastarfsemi ungs fólks og unglinga virki þannig að framleiðsla melatóníns, sem er nokkurs konar svefnhormón líkamans, hefjist seinna á kvöldin en hjá eldra fólki. Það geri það að verkum að þeir eigi erfiðara með að fara snemma að sofa og erfiðara með að vakna snemma. Ofan á þetta bætist lífsstíllinn og mikil tækja- og tölvunotkun.

„Það verður mjög forvitnilegt að sjá svörin við hversu margir unglingar noti tæki seint á kvöldin og rétt fyrir svefninn. Ég veit það bara frá mínu starfi að það eru mjög margir foreldrar sem verða mjög hissa á því þegar þeir komast að því hversu lítið unglingarnir þeirra eru í raun og veru að sofa. Þau bjóða bara góða nótt, fara inn í herbergi og loka að sér en svo geta þau verið vakandi fram undir nóttu í þessum tækjum,“ segir Erla.

Hafa ekki sett sér reglur um tækjanotkun á heimilinu

Hún veltir því upp að ef til vill ráðum við illa við þessa hröðu tækniþróun og miklu tækjanotkun og að margir hafi í raun ekki sett neinar reglur inni á heimilunum hvað þetta varða, til dæmis hversu mikið megi nota tækin og hvenær eigi að hætta því á kvöldin.

„Þessi tæki eiga ekki heima í svefnherbergjunum. Við eigum ekki að nota snjallsíma sem vekjaraklukku eða fara með tölvuna uppí rúm. Mín skoðun er sú að best sé að skila þessum tækjum á einhvern ákveðinn stað á heimilinu um tveimur tímum fyrir svefntíma,“ segir Erla.

Það sé ekki bara áreitið frá tækjunum sem geti spillt svefni heldur hefur bláa ljósið sem stafar frá skjáum tölva og snjalltækja áhrif á melatónínframleiðslu líkamans. Því sé mikilvægt að fólk komi sér í ró um 1-2 tímum fyrir svefn.

„Ég held að þetta sé mikið vandamál, sérstaklega hjá yngra fólkinu, en auðvitað eru margir fullorðnir sem eru með tölvuna uppi í rúmi eða sjónvarp í svefnherberginu og temja sér slæmar svefnvenjur,“ segir hún.

Erla Björnsdóttir, sálfræðingur.
Erla Björnsdóttir, sálfræðingur. Þorkell Þorkelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert