Skoði skaðabótamál vegna Al Thani-dóms

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra (t.v.).
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra (t.v.). mbl.is/Kristinn

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segist vilja taka til skoðunar hvort að ríkið eigi skaðabótakröfu á hendur slitabúi Kaupþings vegna láns sem Seðlabankinn veitti bankanum um sama leyti og brot sem stjórnendur Kaupþings voru sakfelldir fyrir í Al Thani-málinu voru framin.

Guðmundur Steingrímsson frá Bjartri framtíð spurði fjármálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi út í lánveitingu Seðlabankans til Kaupþings í hruninu í tilefni af dómi sem féll í Al Thani-málinu í Hæstarétti í síðustu viku. Þar voru fv. stjórnendur og eigendur Kaupþings dæmdir fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik í tengslum við kaup sjeiksins Al Thani á hlutabréfum bankans í aðdraganda hrunsins.

Sagði Guðmundur að ekki væru öll kurl komin til grafar hvað varðaði lánveitingu Seðlabankans og ýmislegt benti til þess að ekki hafi verið farið að lögum og reglum. Spurði hann hvort ekki væri ástæða til að birta símtal Geirs Haarde, þáverandi forsætisráðherra, og Davíðs Oddssonar, þáverandi seðlabankastjóra og núverandi ritstjóra Morgunblaðsins, systurmiðils mbl.is, í aðdraganda lánveitingarinnar.

Bjarni sagðist sammála því að Alþingi ætti rétt á skýringum á lánveitingunni en sagði jafnframt að hann teldi skýringar á því væru þegar komnar fram. Hann sagðist þó telja það áleitnari spurningu í tilefni af sakfellingunum í Al Thani-málinu hvort að ríkið ætti mögulega skaðabótakröfu á hendur slitabúi Kaupþings þar sem brotin í málinu hafi verið framin á sama tíma og lánveiting Seðlabankans átti sér stað.

„Það er eitthvað sem ég held að við ættum að taka til skoðunar,“ sagði Bjarni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert