Endurskoða leiðir við skipun í nefndir

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um skipan fulltrúa í ráð og nefndir var samþykkt samhljóða á fundi borgarstjórnar í dag. 

„Borgarstjórn samþykkir að fela forsætisnefnd að skoða hvaða leiðir eru tækar við skipun fulltrúa í ráð og nefndir borgarinnar aðrar en huglæg afstaða borgarfulltrúa til þeirra einstaklinga sem lagðir eru til á fundi borgarstjórnar.“

Tillagan var lögð fram í kjölfar þess að þegar kjósa átti um varamann í Mannréttindaráð borgarinnar í síðasta mánuði gerðist sú nýlunda að nokkrir borgarfulltrúar sátu hjá. Mikil umræða skapaðist í þjóðfélaginu, en varamaðurinn umræddi var Gústaf Níelsson.

Hild­ur Sverr­is­dótt­ir, vara­borg­ar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokks­ins, gagn­rýn­di það á fundinum að borg­ar­stjóri og fleiri í meiri­hluta borg­ar­stjórn­ar hafi setið hjá er Gúst­af Ní­els­son var kjör­inn var­a­full­trúi Fram­sókn­ar og flug­vall­ar­vina í ráðið.

Bjó til óheppilegt fordæmi

„Ég tel að þetta hafi búið til óheppilegt fordæmi,“ sagði Hildur og bætti því við að hún telji mikilvægt að borgarstjórn horfi til framtíðar og hugsi til þess að reglur sem settar séu búi ekki til slæm fordæmi.

Sagði hún það með öllu óeðlilegt að pólitísk ábyrgð sé á reiki. Það eigi ekki að vera borgarstjórnar allrar að hafa skoðanir á skipunum fulltrúa í ráð og nefndir, og mikilvægt sé að sú pólitíska ábyrgð liggi mjög skýr hjá hverjum flokki.

„Það er óeðlilegt og beinlínis hættulegt að reglurnar bjóði upp á það að meirihlutinn hefði getað hafnað því að aðili tæki sæti í þessu ráði. Það er ekki nógu gott lýðræðislega séð. Þá er ráðningin orðin pólitískari en hún á að vera og farin að snúast um eitthvað allt annað en hún á að gera.“

Sagði hún að þrátt fyrir að borgarfulltrúar hefðu gefið loforð um það að þetta yrði ekki gert væri það lýðræðislega ótækt að heimildin til að stoppa fulltrúa annarra flokka frá því að setjast í ráð og nefndir væri til staðar.

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, gagnrýndi orð Hildar og sagði það ekki mögulegt að kosið yrði gegn fulltrúa. „Það er ekki hægt. Ef svo færi, sem ég er viss um að myndi aldrei gerast, þá væri hægt að fara fram á hlutfallskosningu.“ Hún sagði þó ágætt að tillagan yrði samþykkt.

Hild­ur Sverr­is­dótt­ir, vara­borg­ar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokks­ins.
Hild­ur Sverr­is­dótt­ir, vara­borg­ar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokks­ins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert