Fjölgað um 10.000 á mánuði

Skráningum í grunninn hefur fjölgað um 10.000 á rúmum mánuði.
Skráningum í grunninn hefur fjölgað um 10.000 á rúmum mánuði.

Skráningar í gagnagrunn landlæknisembættisins yfir afstöðu til líffæragjafar nálgast 19.000, en 12. janúar sl. voru þær um 8.500. Langstærstur hluti þeirra sem hefur skráð afstöðu er á aldrinum 18-40 ára, og þá eru konur 67% skráðra en karlar 33%.

Að sögn Jórlaugar Heimisdóttir, verkefnisstjóra hjá landlæknisembættinu, höfðu nákvæmlega 18.655 skráð afstöðu sína á heimasíðu embættisins í gærmorgun. Hún segir fjölda skráninga velta mjög á umfjöllun um líffæragjöf, og fara allt frá því að vera nokkrar á dag upp í að nema á annað þúsund þá daga sem fjölmiðlar fjalla um málið.

Spurð að því hvort landlæknisembættið hyggi á einhvers konar aðgerðir í ljósi þessa, segir Jórlaug að beðið sé eftir niðurstöðum starfshóps um fjölgun líffæragjafa. Hópurinn var skipaður í október í fyrra og á að skila af sér um miðjan mars.

Jórlaug segist vænta þess að starfshópurinn nálgist málið heildstætt, en til að fjölga líffæragjöfum þurfi m.a. að fræða almenning og heilbriðgðisstarfsfólk um líffæragjöf og horfa til löggjafarinnar.

Skrá má afstöðu til líffæragjafar á heimasíðu landlæknisembættisins. Þar er bæði hægt að samþykkja og hafna líffæragjöf og eins tiltaka hvaða líffæri viðkomandi vill ekki gefa, ef við á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert