Helmingur andvígur aðild að ESB

AFP

Tæplega helmingur landsmanna er andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu, ef marka má nýja könnun Capacent Gallup; 49,1% svarenda sögðust andvígir inngöngu landsins í ESB, 32,8% sögðust hlynntir inngöngu en 18,1% svarenda var hvorki hlynntur né andvígur inngöngu í ESB.

Könnunin var gerð fyrir Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum, og tók til 1.450 manns á öllu landinu, 18 ára og eldri, sem voru handahófsvaldir úr viðhorfahópi Capacent Gallup.

Spurt var hvort fólk væri hlynnt eða andvígt inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Af þeim sem segjast munu kjósa Framsóknarflokkinn, ef gengið yrði til kosninga nú, eru 85% andvígir inngöngu í ESB, 77% þeirra sem kjósa myndu Sjálfstæðisflokkinn og 44% kjósenda VG eru andvígir inngöngu Íslands í ESB.

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eru 42% Reykvíkinga andsnúnir aðild að ESB en 41% borgarbúa er hlynntur aðild. Munurinn er meiri í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar. Þar eru 45% andvígir aðild en 38% hlynntir henni. Munurinn er enn meiri í öðrum sveitarfélögum landsins en þar eru 59% íbúanna andvígir aðild að ESB en 21% hlynntir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert