Nýr Landspítali boðinn út

Landspítalinn.
Landspítalinn.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur falið Nýjum Landspítala ohf. að hefja undirbúning útboðs á fullnaðarhönnun meðferðarkjarna á lóð Landspítalans við Hringbraut. Einnig hefur Nýjum Landspítala ohf. verið falið að ljúka fullnaðarhönnun sjúkrahótels, sem er langt á veg komin, og að bjóða út verkframkvæmdir við gatna- og lóðagerð sjúkrahótels ásamt byggingu þess, að því er kemur fram í frétt á vef velferðarráðuneytisins.

Vorið 2014 samþykkti Alþingi þingsályktun sem fól ríkisstjórninni að byggja upp við Hringbraut, styðjast við núverandi forhönnun og skipulag og framkvæma í samræmi við fjárlög hverju sinni. Við afgreiðslu fjárlaga þessa árs, 2015, var samþykkt að verja 945 milljónum króna til verksins.

Í frétt ráðuneytisins er haft eftir Kristjáni Þór Júlíussyni, heilbrigðisráðherra, að þetta sú ánægjuleg tímamót. 

„Það er sérstaklega ánægjulegt að geta nú falið Nýjum Landspítala ohf. að hefjast handa. Við síðustu fjárlagagerð tókst að tryggja fjármagn til þess, okkur er ekkert að vanbúnaði núna. Það er öllum ljóst að Landspítalinn getur ekki búið mikið lengur við núverandi aðstæður, hvorki sjúklinganna né starfsfólksins vegna. Lélegur húsakostur er farinn að standa starfseminni fyrir þrifum en nú er tækifæri til að snúa vörn í sókn. Ég hef trú á að við stöndum nú á mikilvægum tímamótum og sérstök eftirvænting þegar verkframkvæmdir hefjast við Hringbrautina nú í sumar, sem lengi hefur verið beðið eftir,“ segir hann.

Frétt á vef velferðarráðuneytisins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert