„Þetta heldur náttúrulega engu vatni“

Víglundur Þorsteinsson.
Víglundur Þorsteinsson. mbl.is/Kristinn

„Fyrir það fyrsta staðfestir skýrslan mínar grunnframsetningar um að Fjármálaeftirlitið handlagði og framkvæmdi eignaupptöku á útlánum í gömlu bönkunum til þess að standa undir skuldbindingum þeirra nýju og lét meta til verðs þær eignir þegar þær voru færðar í nýju bankana. Í annan stað er staðfest að matsferlið, sem ég hélt fram að hefði verið til staðfestingar á frummati Fjármálaeftirlitsins, hjá Deloitte LLP í London hafi farið fram og skilað niðurstöðu.“

Þetta segir Víglundur Þorsteinsson lögfræðingur í samtali við mbl.is um skýrslu Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og varaformanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, sem lögð var fyrir nefndina í dag, en skýrslan fjallar um ásakanir Víglunds um að stjórnvöld hafi staðið með ólögmætum hætti að málum þegar samið var um skiptingu nýju og gömlu bankanna í kjölfar bankahrunsins. Brynjar kemst að þeirri niðurstöðu að ekkert bendi til þess að beitt hafi verið skipulögðum blekkingum og svikum í þágu hagsmuna kröfuhafa bankanna gegn hagsmunum ríkisins eða einstaka skuldara né aðfarið hafi verið gegn lögum.

„Síðan skilur á milli í lögskýringum þegar komið er á þann punkt. Ég hef sagt að það hafi enginn annar en Fjármálaeftirlitið valdheimildir samkvæmt neyðarlögunum til þessara hluta og neyðarlögin kveða ekki á um að neinir aðrir hafi slíkar heimildir. Í skýrslunni er farið svona skrítin slaufulögskýring sem gengur út á það í stuttu máli að Fjármálaeftirlitinu hafi verið kunnugt um að fjármálaráðuneytið var byrjað í samningum við erlendu kröfuhafana í bankana um málin, meðal annars með tilliti til þess að þeir myndu taka yfir nýju bankana. Og þar sem Fjármálaeftirlitið hafi ekki skipt sér af því þá jafngildi það samþykki eftirlitsins við gjörðum fjármálaráðherrans. Þetta heldur náttúrulega engu vatni enda eru engar heimildir í neyðarlögunum fyrir því að Fjármálaeftirlitið framselji sitt vald,“ segir Víglundur.

Komist sé að þeirri niðurstöðu á grundvelli þessarar lögskýringar að ekkert hafi verið athugavert við framhaldið. „En það bara skilur á milli með okkur því ég segi að af því að fjármálaráðherra hafði ekki heimildirnar var allt framhaldið ólögmætt. En síðan kemur hann í lokin með hugleiðingar um að það kunni nú eitthvað að hafa verið óeðlilegt þarna sem þurfi hugsanlega að rannsaka.“ Víglundur segist í framhaldinu ætla að skila inn formlegri umsögn um skýrslu Brynjars til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og reiknar með að það gæti orðið um miðjan mars.

„En í stórum dráttum staðfestir skýrslan meginþætti þess sem ég hef verið að segja nema að menn snúa einni lögskýringu á hvolf að mínu mati til þess að komast að þeirri niðurstöðu að ekkert misjafnt hafi átt sér stað. En um leið er aftur snúið til baka og sagt að ef eitthvað misjafnt hafi átt sér stað þurfi kannski að rannsaka það.“

Frétt mbl.is: Engar skipulagðar blekkingar og svik

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert