Fékk 300 milljóna króna rannsóknarstyrk

Inga Dóra Sigfúsdóttir prófessor.
Inga Dóra Sigfúsdóttir prófessor. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta er mjög mikil viðurkenning fyrir rannsóknarhópinn okkar og það sem við stöndum fyrir og fyrir Háskólann í Reykjavík,“ segir Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík, í samtali við mbl.is en hún hefur hlotið rannsóknastyrk frá Evrópusambandinu upp á 2 milljónir evra, eða sem nemur rúmlega 300 milljónum íslenskra króna, til þess að sinna þverfaglegum rannsóknum á áhrifum streitu á líf barna og unglinga.

„Ég hef verið að undirbúa þetta í nokkur ár. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég sæki um þennan styrk. Ég er fjórum sinnum búin að komast í úrslit. Það sækja kannski um á milli 2-3 þúsund umsækjendur og þeir grisja síðan 80% af umsóknunum. Síðan er 20% efstu boðið í viðtöl í Brussel. Þannig að ég hef farið fjórum sinnum í slík viðtöl,“ segir Inga Dóra. Verkefnið hennar er þverfagleg rannsókn á þeim margþættu áhrifum sem streita í umhverfinu getur haft meðal annars á andlega líðan og hegðun barna og unglinga.

„Ég hef undanfarin 20 ár sinnt rannsóknum á högum og líðan ungs fólks og reyna að átta mig á því hvað spái fyrir um heilsu og hegðun barna og unglinga. Þessum rannsóknum hef ég verið að sinna hjá Rannsóknum og greiningu. Margir þekkja skólarannsóknirnar sem við höfum verið að sinna undanfarin ár. Við höfum svarað mjög mörgum spurningum í þeim rannsóknum en núna er ætlunin að taka næsta skref byggt á þeirri þekkingu sem við höfum aflað og hefur verið fjallað um í yfir 70 vísindageinum,“ segir hún ennfremur.

Spurð hvaða þýðingu styrkurinn mun hafa fyrir áframhaldandi rannsóknir segir Inga Dóra: „Þetta mun skapa ótrúlega mörg og góð tækifæri fyrir þessar rannsóknir og fyrir rannsóknarhópinn og fyrir íslenskar félagsvísindarannsóknir. Við munum fagna þessu um helgina en síðan strax á mánudaginn brettum við upp ermarnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert