Fékk bráðaofnæmi af Kötlu-glassúr

Glassúrinn var ekki allur þar sem hann var séður.
Glassúrinn var ekki allur þar sem hann var séður. mbl.is/Styrmir Kári

Tæplega þriggja ára stúlka fékk bráðaofnæmi vegna glassúrs frá Kötlu, sem nú hefur verið innkallaður, á bolludaginn. Stúlkan er með ofnæmi fyrir eggjum og höfðu leikskólakennarar grandskoðað innihaldslýsingu glassúrsins en þegar móðir stúlkunnar setti sig í samband við framleiðandann kom í ljós að í honum er eggjaduft. Glassúr frá Kötlu hefur í það minnsta einu sinni áður verið innkallaður af heilbrigðisyfirvöldum þar sem egg vantaði í innihaldslýsingu.

Móðir stúlkunnar, Guðfinna Halldórsdóttir segir hana nú á batavegi og þakkar fyrir að ekki hafi farið verr. „Augun í henni voru bæði orðin sokkin svo hún gat ekki opnað þau. Hún steyptist síðan öll út í útbrotum, þau byrjuðu á handarbökunum og dreifðust þaðan alveg upp í andlitið. Þegar þarna var komið var hún orðin mjög slöpp,“ segir Guðfinna.

Hún segir ofnæmisviðbrögðin hafa ágerst hratt. Amma stúlkunnar kom að sækja hana og þá voru einkennin að byrja, aðeins 15 mínútur liðu þangað til amman sem er hjúkrunarfræðingur stakk adrenalín penna í læri hennar til að draga úr einkennum sem þá voru orðin eins slæm og áður segir. Hringt hafði verið á sjúkrabíl og var stúlkan fljótlega færð á bráðamóttöku barna þar sem hlúð var að henni með viðeigandi hætti.

„Þetta er lífhættulegt ef ekki er brugðist rétt við og það skiptir sköpum að adrenalín penni fylgi alltaf  einstaklingum sem er með bráðaofnæmi og að fólk sé ekki hrætt við að nota hann þegar þess gerist þörf“ segir Guðfinna

„Mjög mikið ábyrgðarleysi“

Guðfinna tekur skýrt fram að ekki sé við leikskólakennarana að sakast enda hafi þeir skoðað allar innihaldslýsingar sérstaklega með tilliti til ofnæmisins áður en stúlkan fékk bolluna með glassúrnum. „Bollurnar hennar voru meira að segja bakaðar í öðru eldhúsi. Það var allt gert rétt.“

Guðfinna settist niður með starfsfólki leikskólans í fyrradag og var farið yfir hvað það gæti verið sem olli bráðaofnæminu. „Við fórum yfir það sem hún hafði borðað og þá allt í einu mundi ég eftir umræðu um að Kötlu glassúr innihéldi eggjaduft og spurði hvernig glassúr hún hefði fengið,“ segir Guðfinna. Það var staðfest að hún hafði fengið súkkulaði glassúr frá Kötlu. Guðfinnu fór strax að gruna að glassúrinn væri sökudólgurinn en sá að hvergi var minnst á egg í innihaldslýsingunni. Hún hringdi því í Kötlu og spurðist fyrir og þá kom í ljós að eggjaduft er í öllum glassúr sem fyrirtækið framleiðir.

Árið 2011 var glassúr frá Kötlu innkallaður vegna lélegra merkinga en þá vantaði eggjahvítur í innihaldslýsinguna.  Þetta er því í það minnsta í annað skiptið á fjórum árum sem ofnæmisvaldandi efni eru ekki tekin fram í innihaldslýsingu hjá Kötlu.

„Ég verð að segja að mér finnst þetta mjög mikið ábyrgðarleysi af hálfu fyrirtækisins. Fólk sem starfar í matvælaiðnaðinum ber alveg gríðarlega mikla ábyrgð og það er bara óásættanlegt að svona komi upp. Eina leiðin til að koma í veg fyrir ofnæmi er að forðast ofnæmisvaldinn og eru þá innihaldslýsingar það eina sem fólk hefur til að styðjast við og verðum við að geta treyst að þær séu í lagi,“ segir Guðfinna.

Framleiðandi glassúrsins gæti reynst skaðabótaskyldur og leitar hugurinn ósjálfrátt til Bandaríkjanna þar sem málsóknir vegna lélegra merkinga leiða oft af sér háar skaðabætur. Guðfinna segir þó að fjölskyldunni sé einna helst umhugað um málstaðinn og vitundarvakningu gagnvart merkingum og ofnæmisvöldum.

„Þetta gerðist og það er búið og gert en með því að ræða þetta vonast ég til þess að það geti hjálpað til við að koma í veg fyrir að svona gerist aftur. Það er brýn þörf á að ræða þetta málefni, það er alltof algengt að illa sé staðið að merkingum. “ segir Guðfinna.

Glassúrinn sem Katla hefur nú innkallað.
Glassúrinn sem Katla hefur nú innkallað. Ljósmynd/Katla
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert