Þarf ekki að greiða sökum veikinda

Umferðarslys. Myndin er ekki frá því slysi sem lýst er …
Umferðarslys. Myndin er ekki frá því slysi sem lýst er í fréttinni. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað 22 ára konu af kröfu Vátryggingafélags Íslands en tryggingafélagið fór fram á að hún greiddi rúma eina milljón króna vegna tjóns á bifreið sem hún olli. Dómurinn taldi að vegna óvenjulegra aðstæðna væri sanngjarnt að fella niður skaðabótaábyrgð konunnar.

Málsatvik eru þau að kvöldið 9. mars 2010 fékk konan, þá 17 ára, lánaða bifreið móður sinnar. Lögregla var við hefðbundið eftirlit og sýndi hraðaratsjá lögreglu sýndi að bifreiðinni var ekið fyrst á 129 km/klst. og síðar á allt að 139 km/klst. Gaf lögregla ökumanni því merki um að stöðva en hóf síðan eftirför og sú eftirför endaði með því að bifreiðin lenti utan vegar.

Bifreiðin var kaskótryggð hjá VÍS og greiddi tryggingafélagið út 1.195.031 krónu til móður ungu konunnar vegna tjóns á bifreiðinni. Síðar sendi VÍS kröfu á ungu konuna og byggði á því að hún hafi valdið tjóninu og beri á því skaðabótaábyrgð. Henni beri því að greiða félaginu þá fjárhæð sem það hafi greitt í bætur vegna tjónsins.

Í röksemdum félagsins kom fram að með akstri sínum hafi unga konan sýnt af sér stórkostlegt gáleysi í skilningi umferðarlaga þar sem hún hafi ekið langt yfir leyfilegum hámarkshraða við slæmar aðstæður þar sem bæði hafi verið myrkur og bleyta. Stefnda hafi ekið á ofsahraða undan lögreglu og valdið tjóni á bifreiðinni.

Fékk heilahimnubólgu skömmu áður

Konan unga krafðist sýknu vegna þess að hún veiktist mjög alvarlega af heilahimnubólgu um fjórum mánuðum áður en tjónið varð. Í matsgerð sem var aflað kemur fram að hún hafi í kjölfar veikindanna fengið persónuleikatruflun sem lýsi sér í stýritruflun með hömluleysi og pirringi og breyttri hegðun t.d. í samskiptum. Því sé ekki útilokað, miðað við þær upplýsingar sem liggi fyrir, að kvöldið 9. mars 2010 þegar lögregla gerði vart við sig hafi fyrsta viðbragð hennar að fara úr aðstæðum svipað og hún geri heima við, en ráði ekki við aðstæðurnar sem hún sé komin í með þeim afleiðingum að hún veltir bílnum.

„Að virtri matsgerð og vitnisburði matsmanns verður að telja líklegt að veikindi stefndu hafi haft bein áhrif á aksturshæfni hennar á þeim tíma sem tjónið varð og á viðbrögð hennar þá, en ekki verður með sanngirni ætlast til þess að stefnda eða móðir hennar, sem heimilaði henni akstur bifreiðarinnar, áttuðu sig fyllilega á því þá, hver áhrif veikindin hefðu að þessu leyti,“ segir í niðurstöðu dómsins og að dómurinn álíti að niðurfelling skaðabótaábyrgðar stefndu í máli þessu sé sanngjörn vegna mjög óvenjulegra aðstæðna.

Við mat á því hvort aðstæður séu óvenjulegar segir dómurinn: „Stefnda var aðeins 17 ára gömul þegar tjónið varð. Hún hafði nýlega fengið ökuréttindi þegar hún greindist með heilahimnubólgu og glímdi á tjónsdag við alvarlegar afleiðingar hennar svo sem að framan er lýst. Samkvæmt því sem greinir í matsgerð átti stefnda í kjölfar veikindanna í erfiðleikum með nám og þjáist enn af þrálátum höfuðverkjum. Hún er til heimilis hjá móður sinni og starfar sem ófaglærður starfsmaður á leikskóla.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert