Feðraorlof tryggir umönnun beggja foreldra

Sýnt hefur verið fram á að karlmenn taki frekara hlutverk …
Sýnt hefur verið fram á að karlmenn taki frekara hlutverk í umönnun barna sinna eftir að lög um feðraorlof gengu í gildi árið 2000. mbl.is/Ómar Óskarsson

Eftir að lög um feðraorlof tóku gildi hér á landi árið 2000 hafa feður tekið aukinn þátt í umönnun barna sinna. Þetta kom fram á erindi Ásdísar A. Arnalds, doktorsnema í félagsráðgjöf á Félagsráðgjafaþingi í gær. Bar erindið yfirskriftina Fyrsta barn, fæðingarorlof og umönnun: Hlutverk feðra og mæðra og er það byggt á rannsókn Ásdísar, dr. Guðnýjar Björk Eydal, félagsráðgjafa og dr. Ingólfs V. Gíslasonar.

Að sögn Ásdísar er markmið rannsóknarinnar að kanna hvernig foreldrar skipta með sér umönnun barns og tengsl fæðingarorlofstöku og umönnunar. Er einnig leitast eftir því að skoða hvort tekist hefur að ná markmiðum laganna, en þau eru að tryggja barni samvistir við báða foreldra og gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

„Við vitum að réttindin eru til staðar, en hafa feður nýtt sér þau?“ spurði Ásdís.

Hún sagði frá þremur rannsóknum á atvinnuþátttöku og umönnun barna. Voru þær teknar árin 2001, 2007-2008 og 2013.

Í könnuninni var spurt hvernig foreldrar höguðu atvinnuþátttöku á meðgöngu og fyrstu þrjú æviár barnsins. Einnig var spurt um umönnun barnsins, bæði hvernig hún hafði skipts milli forelda fyrstu þrjú árin og eins um umönnun annarra aðila.

Augljóst breyting þremur árum eftir löggjöfina

Þeir foreldrar sem tóku þátt í rannsókninni árið 2001 áttu fyrsta barn sitt árið 1997, þremur árum áður en feður fengu rétt til fæðingarorlofs. „Þar mátti sjá að mæður voru megin umönnunaraðilinn, og þá auðvitað mest á fyrstu mánuðunum,“ sagði Ásdís. Skiptingin varð þó aðeins jafnari á leikskólaaldri en mátti sjá á glæru Ásdísar að móðirin hafi verið helsti umönnunaraðilinn fyrstu þrjú æviár barnsins.

En í seinni rannsókn, sem gerð var árin 2007 og 2008 mátti strax sjá breytingu. Þeir foreldrar höfðu eignast fyrsta barn sitt árið 2003, þremur árum eftir að feður fengu rétt til feðraorlofs. Þar mátti sjá miklu jafnari skiptingu á milli foreldra. Var skiptingin síðan enn jafnari í rannsókn sem gerð var á foreldrum barna sem fæddust árið 2009, en hún var gerð 2013.

Feður taka orlof eftir sex mánuði

Benti Ásdís á að í dag væri það enn algengast að móðirin tæki sex mánaða fæðingarorlof og ef hlutverk föðurins var skoðað á glæru mátti sjá aukna þátttöku er barnið verður sjö mánaða. „Það er einmitt yfirleitt sá tími sem feður taka orlof,“ sagði Ásdís.

Kom jafnframt fram að miðað við rannsóknirnar þrjár eru feður sem taka ekkert orlof ólíklegri til þess að segja að umönnun skiptist jafnt en þeir feður sem taka orlof. „Það getur auðvitað verið að þeir feður sem hafa áhuga á umönnun barns síns séu þeir sem taka orlof,“ sagði Ásdís.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert