Gert að halda sig á afmörkuðu svæði

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins. Mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir að tveimur hælisleitendum sem krafist var að myndu sæta gæsluvarðhaldi verði gert að dvelja á afmörkuðu svæði og þeir þeim gert að tilkynna sig til lögreglu. Um er að ræða úrræði sem finna má í lögum um útlendinga.

Eins og greint var frá á mbl.is fyrr í dag staðfesti Hæstiréttur úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að hafna beri kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að hælisleitendurnir sæti gæsluvarðhaldi.

Frétt mbl.is: Hælisleitandi fylgjandi IS

Í dómi Hæstaréttar segir að annar maðurinn hafi sýnt af sér hegðun sem gefi til kynna að af honum stafi hætta. Hins vegar hafi lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ekki reynt vægari úrræði en gæsluvarðhald og sé því kröfu hans hafnað. Ekki megi beita útlending varðhaldi nema að það sé nauðsynlegt til að ná lögmætu markmiði, sem að er stefnt, og að því verði ekki náð með öðru og vægara móti.

Í tilvikum eins og því sem hér um ræðir geti lögregla lagt fyrir viðkomandi útlending að dvelja á ákveðnu afmörkuðu svæði áður en látið yrði reyna á gæsluvarðhald. Með „afmörkuðu svæði“ sé til dæmis átt við tiltekinn bæjarhluta, gistiheimili eða aðra aðstöðu sem komið yrði upp fyrir þá útlendinga sem um ræði.

Mögulega gerð krafa á ný

Sigríður Björk staðfesti við mbl.is í kvöld að látið verði reyna á umrætt úrræði og að mönnunum verði gert að dvelja á afmörkuðu svæði og þeir settir í tilkynningaskyldu á grundvelli 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga.

Í ákvæðinu segir orðrétt: „Ef útlendingur neitar að gefa upp hver hann er, rökstuddur grunur er um að útlendingur gefi rangar upplýsingar um hver hann er eða hann sýnir af sér hegðun sem gefur til kynna að af honum stafi hætta er heimilt að handtaka útlendinginn og úrskurða í gæsluvarðhald samkvæmt reglum laga um meðferð sakamála, eftir því sem við á. Einnig getur lögregla lagt fyrir hann að tilkynna sig eða halda sig á ákveðnu afmörkuðu svæði.“

Fari hælisleitendurnir tveir ekki eftir fyrirmælum lögreglunnar getur komið til þess að gerð verði krafa að nýju um gæsluvarðhald.

Telur að hætta stafi af mönnunum

Fram kemur í greinargerð lögreglustjóra með gæsluvarðhaldskröfunni að hann telji að mennirnir séu undir rökstuddum grun um að gefa rangar upplýsingar hjá yfirvöldum um hverjir þeir eru, en þeir hafi gefið upp mismunandi nöfn og aldur milli landa. Ekki sé vitað hver séu raunveruleg nöfn, þjóðerni og aldur þeirra. Þá sé ljóst að þeir hafi verið í miklu ójafnvægi síðan þeir komu til landsins og sé það mat lögreglu að þeir hafi sýnt af sér hegðun sem gefi til kynna að af þeim stafi hætta og að talin sé hætta á því að þeir kunni að grípa til ofbeldis gangi þeir lausir.

Frétt mbl.is: Óheppilegt að þeir gangi lausir

Er það jafnframt mat lögreglustjóra að ætla megi að þeir muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan yfirvöldum og lögmætum ráðstöfunum, svo sem flutningi frá landinu. Þá sé það enn fremur mat lögreglustjóra að aðgerðir og athafnir kærðu eftir að þeir komu til landsins séu þess eðlis að af þeim stafi hætta og óöryggi.

Sagðist elska hryðjuverkasamtök

Við skýrslutöku hjá lögreglu sagðist annar mannanna styðja aðferðir hryðjuverkasamtakanna íslamska ríkisins og að hann elski samtökin. Þá sagðist hann vilja taka þátt í stríði fyrir guð. Þegar tölva sem maðurinn hafði aðgang að var skoðuð kom í ljós að hann hafi verið að skoða mikið af efni sem tengist hryðjuverkasamtökum eins og íslamska ríkinu og Boko Haram, m.a. þar sem sjá megi aftökur á fólki.

Frétt mbl.is: Kunna að grípa til ofbeldis

Samkvæmt upplýsingum frá Interpol og lögreglu eins Norðurlandanna eru mennirnir þekktir annars staðar undir öðrum nöfnum, fæðingardögum og árum. „Á það er bent að kærði og samferðarmaður hans séu eftirlýstir innan [...] þar sem brottvísa eigi þeim til [...] á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Báðir séu þeir eftirlýstir í [...] þar sem þeir hafi ekki sinnt boðunum vegna hælisumsókna sinna,“ segir í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.

Fáni IS.
Fáni IS. Photo/Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert