Hvernig virkar þetta SPOT-tæki?

Margir hafa vafalaust fylgst með fréttum af leitinni sem fram fór í gær og fram á daginn í dag að Kerstin Langenberg sem lagði af stað á þriðjudaginn í ferð í kringum Mýrdalsjökul á skíðum. Hún fannst í dag heil á húfi í morgun í skálanum í Hvanngili. Hafði hún ekki hugmynd um að leitað væri að henni en hún hafði látið vita af sér reglulega með svokölluðu SPOT-tæki. Síðustu skilaboðin frá henni bárust hins vegar í hádeginu á föstudag en ekkert eftir það. Telur Kerstin að ástæða sé líklega sú að tækið hafi bilað.

En hvers kona tæki er þetta SPOT-tæki? Svo vill til að Árni Matthíasson ritaði umfjöllun í sunnudagsblað Morgunblaðsins um helgina þar sem fjallað er um slík tæki og hvernig þau virka. Tækin hafa verið mjög vinsæl hjá þeim sem leggja í ferðir á hálendið og þykja nýtast vel sem öryggistæki til þess að láta vita af sér á fáförnum slóðum. Hér á eftir fer umfjöllun Árna:

Gervihnattasendir í vasann

Á síðustu árum hefur áhugi á útivist margfaldast hér á landi og afleiðing þess er að sífellt fleiri sækja í það að vera utan alfaraleiðar, að feta slóðir sem fáir eða enginn hefur áður farið. Þá skiptir miklu að vera vel búinn, að bera með sér skjólbúnað og næringu, en líka það að geta látið vita af sér ef allt fer á versta veg.

Víst eru margir með GPS-tæki til að vita hvar þeir eru staddir og allir með farsíma og sumir meira að segja síma sem ekki þarf að hlaða daglega. Svo vill þó til að ekki þarf að fara langt á Íslandi til þess að komast úr farsímasambandi, eða í það minnsta í svo lélegt samband að ekki er hægt að treysta á það. Já, það er hægt að fá sér gervihnattasíma, en þeir kosta skildinginn, bæði símtækið sjálft og svo það að vera með áskrift að slíku kerfi. Að þessu sögðu þá er til einfaldari og ódýrari leið til að nýta gervihnattakerfi; til eru einföld og tiltölulega ódýr tæki eins og SPOT Gen3, sem hér er gert að umtalsefni.

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd er SPOT-tæki ekki mikið um sig, en hefur þó að geyma gervihnattamóttakara og sendi sem hægt er að nýta á ýmsa vegu. Tækið er ekki nema 87,2 x 65 mm að stærð og 25,4 mm að þykkt og fislétt, ekki nema 114 g að þyngd, rafhlaðan meðtalin. Einfalt er að hengja það á bakpoka eða úlpu, en líka er hægt að kaupa alls kyns festingar til að festa það á handlegg eða fótlegg ef vill, en tækið þarf að sjá til himins, ef svo má segja, til að ná sambandi við GPS-gervihnött. Eins er rétt að nefna að SPOT-tækin eru simplex-tæki; það þýðir að þau senda boð í gervihnött en geta ekki látið vita hvort boðin hafi komist til skila. Ef þörf er á slíku þurfa menn að fá sér duplex-gervihnattatæki og þá erum við líka að taka um mun dýrari tæki og mun dýrari áskrift.

Framan á tækinu eru sýnileg gaumljós og þrír hnappar. Neðst til hægri er hnappur sem smellt er á til að senda fyrirfram ákveðin skilaboð til tiltekins hóps móttakenda, en skilaboðunum geta fylgt GPS-hnit eða tölvupóstur með tengli á staðsetningu á Google Maps. Þannig er hægt að semja skilaboð um að maður sé kominn á tiltekinn áfangastað eða að lokum göngunnar, nú eða bara að maður sé kominn í náttstað og allt gangi vel. Hægt er að senda SMS og/eða tölvupóst til allt að tíu viðtakenda, en staðsetningin er vistuð í SPOT-grunni viðkomandi notanda.

Í miðju í neðstu röð er hnappur fyrir göngurita, bæði til að skrá ferðina fyrir sjálfan sig, en líka til að leyfa öðrum að fylgjast með ef vill. Hægt er að láta tækið skrá leiðina með tiltekinni tíðni, hægt að velja um hvort það sé á 5, 10, 30 eða 60 mínútna fresti, og það heldur þeirri skráningu áfram á meðan kveikt er á tækinu og það er á hreyfingu. Hægt er að greiða sérstaklega fyrir skráningu allt niður í hálfa þriðju mínútu ef vill.

Lengst til hægri er svo hnappur fyrir stutt skilaboð til þeirra sem eru að fylgjast með göngunni úr fjarska, en ef þrýst er á hnappinn sendir tækið stutt skilaboð til að láta vita hvar maður er, ýmist sem GPS-hnit eða sem staðsetning á Google-korti. Líkt og með hnappinn lengst til vinstri er hægt að senda SMS og/eða tölvupóst til allt að tíu viðtakenda.

Fyrir ofan þessa hnapparöð eru svo hnappar til að óska eftir hjálp, en yfir þeim eru flipar til að tryggja að ekki sé ýtt á þá fyrir misgáning. Vinstra megin er einkahjálparhnappur, ef svo má segja, en hann er ætlaður til þess að senda hjálparbeiðni til aðstoðarmanna eða aðstandenda þegar menn lenda í vandræðum, en eru ekki í beinni lífshættu. Hægra megin er svo SOS-hnappur, en ef ýtt er á hann fara boð til miðstöðvar í Bandaríkjunum og síðan til þeirrar björgunarsveitar sem næst er þeim sem sendi boðin. Á vefsetri framleiðandans er að finna fjöldann allan af björgunarsögum og á korti sem birt er á síðunni ma sjá að einhverjum hefur verið bjargað hér á landi eftir hjálparbeiðni í gegnum SPOT-tæki.

Eins og fram kemur hér til hliðar er tækið lítið um sig og létt, 87,2 x 65 x 25,4 mm og 114 g. Það þolir hitasveiflur frá 30 gráðu frosti í 60 gráðu hita og hæð frá 100 m dýpi upp í 6.500 m hæð. Það er rakaprófað samkvæmt hernaðarstaðlinum MIL-STD-810F, 507.3, og þolir 95% til 100% raka.

SMS um allan heim

Ef ekki er nóg að geta látið vita af sér er náttúrlega hægt að næla sér í gervihnattasíma, eins og SPOT-símann sem sést á mynd hér fyrir ofan. Það kostar náttúrlega sitt, en getur kostað meira að hafa ekki slíkt tæki við höndina þegar þörf krefur. Slíkir símar verða þó minni og minni með tímanum og eins eru til ýmis apparöt sem gera kleift að halda sambandi hvar sem er í heiminum.

Gott dæmi um hvað gera má með slíkum tækjum er inReach SE-sendirinn frá DeLorme sem nýtir Iridium-gervihnetti til að senda SMS og líka taka við slíkum skeytum. DeLorme inReach SE er ekki gervihnattasími, en til viðbótar við það að tækið sendi staðsetningarupplýsingar er hægt að nota það til að senda neyðarkall og líka til að senda og taka við SMS-skeytum, aukinheldur sem það lætur vita hvort það tókst að senda boð, semsé: Duplex-samskipti. Hægt er að stilla hve oft tækið sækir ný skilaboð, sjálfgefið er á 20 mínútna fresti, en hægt að láta það kanna á fimm, tíu eða fimmtán mínútna fresti. Líka er hægt að sjá á vefsíðu hvar viðkomandi er staddur miðað við GPS-hnit og líka hraða, hæð og stefnu.

Hægt er að sækja sér símaforrit, tengjast tækinu í gegnum Bluetooth og nota þá símann til að skrifa og lesa SMS-skeyti, sem er náttúrlega ólíkt þægilegra en að nota talan/stafaborðið á tækinu sjálfu.

Í tækinu eru tvær AA-litínrafhlöður sem endast í 125 tíma samfellda notkun miðað við að staðsetning sé send með tíu mínútna millibili. Líka er hægt að setja í það aðrar AA-rafhlöður. Það er rykvarið og vatnshelt að því leyti að það þolir að vera í metradjúpu vatni í tvo sólarhringa.

 

SPOT-tæki.
SPOT-tæki.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert