Tekið til aðalmeðferðar í september

Hreiðar Már Sigurðsson og verjandi hans Hörður Felix Harðarson.
Hreiðar Már Sigurðsson og verjandi hans Hörður Felix Harðarson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fyrirtaka fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun í svonefndu Marple-máli. Tekin var ákvörðun um að aðalmeðferð í málinu hæfist 7. september og voru sækjendur og verjendur sammála um að gera ráð fyrir að hún tæki tvær vikur. Saksóknari lagði ennfremur fram ný gögn í málinu úr bókhaldskerfi Kaupþings ásamt tölvupóstsamskiptum. Verjendur gerðu ekki athugasemd við það.

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri bankans, eru ákærð í málinu fyrir fjárdrátt og umboðssvik. Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, er ákærður fyrir hlutdeild í fjárdrætti og umboðssvikum Hreiðars Más og Guðnýjar Örnu og Skúli Þorvaldsson er ákærður fyrir hylmingu.

Þess utan er krafist upptöku fjár hjá félögunum Marple Holding S.A. SPF, BM Trust S.A. SPF, Holt Holding S.A., SKLux S.A. og Legatum Ltd. Öll eru félögin með lögheimili í Lúxemborg fyrir utan Legatum sem er með lögheimili á Möltu.

Verjendur hafa tíma til 15. júlí til þess að skila greinargerðum í málinu samkvæmt dómi Hæstaréttar fyrr í þessum mánuði. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður veitt þeim frest til þess til 1. nóvember. Hæstiréttur rökstuddi dóm sinn með því að hraða bæri rekstri málsins eins og kostur væri vegna þeirra fjármuna í eigum fyrrgreindra félaga sem kyrrsettir hefðu verið.

Fréttir mbl.is:

Frestur styttur í Marple-máli

Frávísunarkröfum í Marple-máli hafnað

Allir neita sök í Marple-málinu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert