Áfengisfrumvarp gegn stefnu Reykjavíkurborgar

Áfengi í matvöruverslun.
Áfengi í matvöruverslun. EPA

Forvarnarfulltrúar Reykjavíkurborgar telja að frumvarp um afnám einkasölu á áfengi fari gegn stefnu Reykjavíkurborgar í forvörnum og tekur velferðarsvið borgarinnar undir það sjónarmið. Sviðið telur mikilvægt að frumvarpið nái ekki fram að ganga.

Í umsögn velferðarsviðs borgarinnar um frumvarp Vilhjálms Árnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, þess efnis að sala áfengis verði heimiluð í matvöruverslunum, segir að mikilvægt sé að áfengi verði áfram selt samkvæmt núverandi fyrirkomulagi.

Sjá einnig: Vín í verslanir

Þá ber að geta þess að borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýstu sig ósammála umsögninni. Í bókun bentu þeir á að síðan 1987 hefði vínbúðum fjölgað úr 13 í 49, afgreiðslutíminn verið lengur, boðið væri upp á netverslun og heimsendingu og vínveitingastöðum hefði á sama tíma fjölgað yfir 700%. „Þrátt fyrir þetta aukna aðgengi hefur unglingadrykkja dregist verulega saman á Íslandi, svo mikið að það vekur athygli langt út fyrir landsteinana.“

Frétt mbl.is: Ósammála umsögn um áfengisfrumvarp

Þrátt fyrir að fulltrúar Sjálfstæðisflokks væru mótfallnir umsögninni var hún send til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Í henni segir meðal annars að ungt fólk og jaðarhópar séu í sérstakri áhættu ef aðgengi að áfengi eykst og því geti fórnarkostnaðurinn verið mikill.

Neikvæð áhrif á börn

Þá segir að forvarnarfulltrúar sem starfa á þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar telji að breytingar á sölu áfengis á Íslandi séu ógn við forvarnir og líklegar til að hafa víðtæk neikvæð áhrif á velferð þjóðarinnar, ekki síst á börn og unglinga.

„Í forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar er lögð áhersla á að taka tillit til allra þátta sem geta haft áhrif á líðan og hegðun barna og unglinga. Því er mikilvægt að styrkja alla þá verndandi þætti sem vitað er að dragi úr eða komi í veg fyrir neyslu áfengis. Það mun spara samfélaginu mikla fjármuni sem hægt er að nýta í uppbyggileg verkefni og auka velferð í samfélaginu,“ segir í umsögninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert