Alvarlegt umhverfisslys

Spilliefnalykt tók á móti starfsmönnum Kópavogsbæjar þegar þeir fóru inn …
Spilliefnalykt tók á móti starfsmönnum Kópavogsbæjar þegar þeir fóru inn í skólpdælustöð við Sunnubraut. mbl.is/Árni Sæberg

Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis hefur tilkynnt Umhverfisstofnun um „alvarlegt umhverfisslys“ vegna spilliefna sem losuð voru í hluta fráveitukerfis Kópavogsbæjar.

Að sögn Guðmundar H. Einarssonar, framkvæmdastjóra eftirlitsins, uppgötvaðist málið eftir að íbúar hringdu til bæjaryfirvalda í Kópavogi og kvörtuðu undan spilliefna- eða bensínlykt. Að auki fundu starfsmenn á vegum bæjarins megna spilliefnalykt í einni af dælustöð bæjarins. Um einangrað atvik sé að ræða og ekki hefur orðið vart við mengunina síðan 27. janúar þegar tilkynnt var um hana.

Ekki tókst að mæla mengunina áður en hún fór til sjávar en miðað við fregnir af ólyktinni virðist hafa verið um mikið magn að ræða. Tilgátan sem unnið er út frá er sú að um hafi verið að ræða losun frá einhverri starfsemi, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

 Guðmundur segir að ekki sé uppi nein tilgáta um það hver eigi sök á þessu. Rætt hefur verið við forsvarsmenn fyrirtækja í næsta nágrenni, þ.ám. bensínstöðva og þeir beðnir um að kanna áfyllingar, mengunarvarnarbúnað og framkvæma birgðamat. Ekkert fannst sem kann að skýra mengunina.

Sigríður Kristjánsdóttir, teymisstjóri í eftirliti hjá Umhverfisstofnun, segir að fyrirtæki á svæðinu séu undir eftirliti hjá stofnuninni. „Við höfum ekki getað staðfest að uppruninn sé hjá ákveðnu fyrirtæki. Þegar uppruninn er ekki þekktur þá er erfitt að bregðast við,“ segir Sigríður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert