Bæri hag kröfuhafa fyrir brjósti

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Mér bregður svolítið í brún að heyra viðhorf háttvirts þingmanns til þessa verkefnis sem er aflétting hafta. Fyrst og fremst afstöðu háttvirts þingmanns til þessara margumræddu kröfuhafa bankanna. Háttvirtur þingmaður virðist bera hag þeirra mjög fyrir brjósti og óttast að stjórnvöld muni koma fram á þann hátt að þeir verði ósáttir eftir.“

Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á Alþingi í dag þar sem hann ræddi um fjármagnshöftin við Guðmund Steingrímsson, formann Bjartrar framtíðar. Guðmundur sagðist vera orðinn langeygur eftir því að áætlanir um losun haftanna yrðu gerðar opinberar. Velti hann því fyrir sér hvort ágreiningur væri á milli stjórnarflokkanna í þeim efnum. Sagðist hann telja að erfitt yrði að skattleggja þrotabú bankanna með útgönguskatti og réttlæta slíka skattlagningu fyrir dómstólum ef hún snerist um að skapa digra sjóði hér á landi.

„Einnig get ég ímyndað mér að svona nálgun sé ýmsum hagfræðilegum annmörkum háð, að ef hér myndast digrir sjóðir út úr þessu ferli, nokkur hundruð milljarðar, hefði það sömu áhrif að dæla þeim peningum inn í hagkerfið og einfaldlega að prenta svoleiðis peninga. Getur hæstvirtur forsætisráðherra sagt við mig skýrt hvort hann líti svo á að ferlið við afnám hafta snúist um það að skapa hér digra sjóði?“ spurði Guðmundur ennfremur.

„Þarf að jafna mig áður en ég svara áfram“

Sigmundur sagði málið mjög einfalt eins og margoft hefði verið farið yfir í umræðum á Alþingi og utan þess. Til þess að hægt yrði að aflétta fjármagnshöftunum yrði að skapast svigrúm sem kæmi í veg fyrir að aðgerðin ógnaði efnahagslegum stöðugleika á Íslandi. Sagðist hann hafa talið þetta orðið óumdeilt. Seðlabankastjóri hefði margoft farið yfir þetta sem og fræðimenn í hagfræði. 

„Ég hélt að það væri orðið algjörlega óumdeilt að samhliða afnámi hafta þyrfti að skapa efnahagslegt svigrúm þannig að ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að bregðast við þessari nálgun háttvirts þingmanns. Að hann líti á það á einhvern hátt sem ókost eða að verið sé að svína á mönnum ef opnuð verður greið leið hér út með fjármagn. Ég er bara svo undrandi að heyra þessa nálgun að ég þarf aðeins að jafna mig áður en ég held áfram að svara.“

Þarf að gæta þess að ýta ekki undir verðbólgu

Guðmundur sagði ekki deilt um að slíkt svigrúm þyrfti að skapast. Afnám hafta snerist hins vegar um að létta af þrýstingi í fjármagnsflutningum á milli landa. Ef útgönguskattur yrði lagður á þrotabúin yrði það líklega til þess að nokkur hundruð milljarðar af íslenskum krónum söfnuðust fyrir í Seðlabankanum. Notkun á þeim krónum innanlands í alls kyns verkefni eins og talað hefði verið um væri í raun það sama og að prenta peninga sem allir vissu hvaða afleiðingar hefði. Það þýddi meiri verðbólgu. Spurði hann ráðherrann hvort þetta hefði verið skoðað.

„Ég hef ekki enn fengið skilning á áhyggjum háttvirts þingmanns af stöðu kröfuhafa og því að á einhvern hátt sé verið að svína á þeim ef tekinn væri upp svokallaður útgönguskattur,“ sagði Sigmundur. Guðmundur kallaði þá úr sal að hann hefði aldrei sagt það. Hins vegar sagði ráðherrann að ríkið yrði að sjálfsögðu að gæta þess að ýta ekki undir þenslu. Ekki stæði þó til að fara í framkvæmdir upp á hundruð milljarða á einu ári. 

„Ef staða ríkissjóðs batnar hins vegar þýðir það að ríkið þarf ekki að borga eins mikla vexti ár frá ári og er betur í stakk búið til þess að nýta það fjármagn, ekki síst í velferðarkerfið.“

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar.
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert