Grunnlaun dugi fyrir nauðsynjum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson.

Mikilvægt er að fólk geti náð lágmarkslaunum með eðlilegu vinnuframlagi í stað þess að launamál þróist með þeim hætti að fólk sé á mjög lágum grunnlaunum en stór hluti tekna og jafnvel helmingur komi vegna viðbótarvinnu. Æskilegt væri ennfremur að grunnlaun fólks nægðu til þess að standa undir lífsnauðsynjum.

Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á Alþingi í dag í umræðu um kjaramál þar sem hann svaraði fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs sem benti á að nægir fjármunir væru í samfélaginu. Það skipti hins vegar máli hvernig þeim væri deilt niður. Spurði hún ráðherrann hvort hann styddi kröfur verkalýðsfélaganna um að lægstu taxtar yrðu ekki undir 300 þúsund krónum.

Sigmundur sagðist telja að forgangsraða ætti með þeim hætti að sérstaklega yrði komið til móts við fólk með lægri tekjur og millitekjur. Það yrði best gert með krónutöluhækkun. Vísbendingar væru um að krónutöluhækkanir hefði leitt til aukinnar verðbólgu en oft á tíðum hefðu slíkar hækkanir að sama skapi reynst vel. Ráðherrann sagði ríkisstjórnina sem fyrr opna fyrir tillögum frá aðilum vinnumarkaðarins um það hvað hún gæti lagt að mörkum vegna komandi kjarasamninga.

„Þar skiptir augljóslega miklu máli hvernig ríkið hagar gjaldtöku, skattlagningu og þar fram eftir götunum og þar höfum við svo sannarlega verið til í að stilla saman strengi við aðila vinnumarkaðarins. En húsnæðismál hafa líka verið nefnd sérstaklega og ekki er ólíklegt að húsnæðismálin blandist eitthvað inn í þær viðræður sem í hönd fara. Þar hefur mikil undirbúningsvinna átt sér stað af hálfu stjórnvalda, eins og háttvirtur þingmaður þekkir, og vonandi má hún verða til að liðka fyrir samningum og bæta um leið stöðu bæði leigjenda og þeirra sem vilja fjárfesta í húsnæði,“ sagði hann.

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert