Hafa löngun og getu til voðaverka á Íslandi

Í mati á hryðjuverkahættu hér á landi sem greiningardeild Ríkislögreglustjóra sendi frá sér fyrr í kvöld kemur fram að lögreglan búi yfir upplýsingum um einstaklinga hér á landi sem telja verði hættulega samfélaginu. Viðkomandi búi bæði yfir löngun og getu til að fremja voðaverk og geta slíkar árásir bæði verið tilfallandi eða skipulagðar með stuttum fyrirvara.

„Í landinu eru vopn, aðgengileg almenningi, sem nýta má til að framkvæma hryðjuverk og aðrar stórfelldar árásir. Rúmlega 72.000 skotvopn eru löglega skráð í landinu en fjöldi óskráðra vopna er óþekktur,“ segir í matinu.

Í matinu segir jafnframt að árangursrík viðleitni Ríkis íslams og annarra hryðjuverkahópa til að ná til fólks á Vesturlöndum hafi þau áhrif á Íslandi að viðteknar sviðsmyndir hryðjuverkaógnar verða óstöðugar og geta breyst skyndilega. Greiningardeildin segir almenna internetnotkun  og tölvu- og snjalltækjaeign hafa stuðlað að því að fleiri en ella komast í kynni við samtök á borð við Ríki íslams.

„Óvissa fer vaxandi, ekki síst vegna áhrifaþátta á borð við internet og samfélagsmiðla auk vaxandi ógnar í nágrannaríkjum og á meginlandi Evrópu. Því kann sú staða að skapast að nauðsynlegt verði að hækka vástig/viðbúnaðarstig lögreglu snögglega.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert