23% meiri kjörsókn

Rafrænum íbúakosningum um Betri hverfi 2015 lauk í nótt samkvæmt fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg. Kjörsókn var 23,2% meiri en í fyrra. Alls skiluðu 6.496 kjósendur atkvæðum sem er svipað og í fyrstu kosningunum sem haldnar voru árið 2012.

 Þegar kosningavef  Reykjavíkurborgar var lokað um kl. 2 í nótt höfðu 6.496 kjósendur skilað 7.738 atkvæðum. Í kosningunum er leyfilegt að kjósa oftar en einu sinni en aðeins síðasta atkvæðið gildir.

Þetta er talsvert meiri kjörsókn en í rafrænum íbúakosningum í fyrra þegar ríflega 5.200 atkvæði voru talin upp úr rafræna kjörkassanum en kosningar í ár voru þær fjórðu sem Reykjavíkurborg heldur þar sem notast er við rafræn skilríki og veflykla til auðkenningar. 

Kosningarnar snúast um smærri verkefni í hverfum Reykjavíkur en í þeim er kosið á milli innsendra hugmynda borgarbúa. Metfjöldi hugmynda barst í söfnun vegna kosninganna sem stóð yfir á vefnum Betri Reykjavík í haust en alls bárust um 700 hugmyndir að verkefnum frá íbúum. 

Alls hlutu 107 verkefni í hverfum Reykjavíkur kosningu í atkvæðagreiðslunni.

Kjörstjórn á vegum Reykjavíkurborgar lauk störfum við talningu atkvæða í morgun. Í henni sitja Helga B. Laxdal, skrifstofustjóri skrifstofu borgarstjórnar, Sonja Wiium  verkefnisstjóri Betri Reykjavíkur og  Eggert Ólafsson gæðastjóri skrifstofu þjónustu og reksturs.

Nákvæmar niðurstöður kosninganna munu verða birtar á vef Reykjavíkurborgar á morgun, fimmtudaginn 26. febrúar, ásamt skýrslu með niðurstöðum um hvernig kjörsókn skiptist á milli hverfa.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert