Andlega ofbeldið oft verst

25% barna í grunnskólarannsókninni sögðust þekkja einhvern sem orðið hefur …
25% barna í grunnskólarannsókninni sögðust þekkja einhvern sem orðið hefur fyrir heimilisofbeldi. Myndin er sviðsett. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Um fjórðungur skólabarna þekkir einhvern sem hefur orðið fyrir ofbeldi heima hjá sér. Þetta er meðal þess sem fram kom á fundi samráðshópsins Náum áttum. Börn sem hafa upplifað ofbeldi á heimili sínu segja andlega ofbeldið verst og þau vilja að skólinn veiti fræðslu varðandi heimilisofbeldi.

Skólabörn á Íslandi hafa leitt hugann að ofbeldi á heimili, þekkja til þess og leggja sinn skilning í ofbeldið sem fer ekki alltaf saman við hugmyndir fullorðinna. Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi þeirra Margrétar Ólafsdóttir, sem er aðjunkt við Háskóla Íslands og Ingibjargar H. Harðardóttur, lektors við HÍ, á fundi um ofbeldi á heimilum á vegum samstarfshópsins Náum áttum.

Í erindinu kom fram að börnin hafi ekki gert greinarmun á kynjunum þegar kom að ofbeldinu, það er gjörðin ekki kynið sem var ofbeldið. Mikill meirihluti vildi að kennt yrði í skólum um ofbeldi og það var ekkert endilega kennarinn sem ætti að sinna þeirri kennslu.

„Þetta er bölvuð steypa“

„Þetta er bölvuð steypa og það að lenda í svona heimilisofbeldi er bara það versta sem maður getur lent í, segir 15 ára drengur sem rætt var við í rannsókninni.

Í viðtalsathugun sem gerð var í rannsókninni var rætt við fjórtán börn á aldrinum 9-19 ára, sex stúlkur og átta drengi. Eins var rætt við sex mæður sem höfðu búið við heimilisofbeldi en skilyrðið var að ofbeldinu væri lokið á heimilinu.

Það sem var skoðað var ofbeldi feðra eða stjúpa en ekki mæðra eða stjúpmæðra en vonir standa til að það verði hægt að rannsaka þeirra þátt síðar.

Þær Ingibjörg og Margrét fjölluðu um rannsókn sem var gerð við Háskóla Íslands. Rannsóknin var þríþætt: Spurningalistakönnun var lögð fyrir skólabörn til að rannsaka almenna þekkingu og skilning þeirra á ofbeldi á heimilum, þá voru tekin viðtöl við börn og mæður sem búið hafa við slíkt ofbeldi og loks var greind orðræða um heimilisofbeldi í prentmiðlum. Niðurstöður eru kynntar í bókinni Ofbeldi á heimili. Með augum barna.

Í viðtölunum kom fram að börnin höfðu upplifað margs konar ofbeldi sem beindist bæði að þeim sjálfum og móður þeirra, stjórnsemi í daglegu lífi og tilraunum til að einangra fjölskyldumeðlimi. Eins og við var að búast leið börnunum afar illa meðan á ofbeldinu stóð og ofbeldið hélt áfram að þjaka sum þeirra eftir að ofbeldismaðurinn flutti af heimilinu. Börnin sögðu frá ýmsum leiðum til að takast á við ofbeldið og komu með ábendingar til fagfólks og stofnana um aðstoð við fjölskyldur sem búa við ofbeldi.

Börnin óska eftir að skólinn fræði um ofbeldi á heimili og hafa skoðun á hvernig þeirri fræðslu sé háttað. Þau vilja hjálp og að skólinn geti brugðist við ef barn býr við ofbeldi á heimili sínu.

Er heimilið griðastaður?

Sum barnanna sem rætt var við töldu að það gæti reynst erfitt að finna einhvern til að tala við og best væri að finna einhvern einn kennara sem er hægt að treysta, „en stundum finnur maður ekki neinn,“ sagði einn viðmælenda þeirra sem hafði upplifað heimilisofbeldi.

Annar lýsti samskiptum sínum við skólastjóra og afskiptaleysi hans þrátt fyrir að vera með barn fyrir framan sig sem átti í alvarlegum vandræðum. ...ég sat þarna inni hágrátandi... og hvað var erfitt að vaka allar nætur og hann sagði: að þetta var ekki mitt mál og farðu bara út að leika þér, en þetta er lýsing 16 ára skóladrengs á samtali hans og skólastjórans.

Þær Ingibjörg og Margrét veltu upp spurningunni um hvort heimilið sé griðastaður fyrir börn. En börn eru mjög varnarlaus þau geta ekki leitað eftir hjálp.

Börnin og mæðurnar lýstu marghátta og alvarlegu ofbeldi, svo sem líkamlegu, andlegu og tilfinningaleg ofbeldi, stjórnsemi og fjárhagslegri kúgun. Ástandið á heimilinu síðan oftar en ekki til vanræklsu.

„Hann barði mömmu og var sko orðljótasta vera veraldar... hann hrækti á hana og bölvaði henni í sand og ösku og bara niðraði hana eins og hann frekar gat,“ segir  15 ára strákur sem upplifði ofbeldi á heimili sínu.

Annar ellefu ára lýsti því hvernig faðir hans hafi beitt aðra á heimilinu ofbeldi, hann hafi lamdi, sparkaði, hrækti og kallaði þau illum nöfnum. Stundum var jafnvel nóg að hnerra - það kostaði ofbeldi.

Ingibjörg og Margrét lýstu varnarleysi barnanna gagnvart ofbeldinu, reiði þeirra en um leið væntumþykju þeirra í garð fullroðinna enda erfitt að bera kala til þeirra sem þau tengjast tilfinningaböndum.

„Það hjálpaði mér rosalega mikið að sjá hvað hann gat verið góður,“ sagði 13 ára stúlka sem rætt var við í rannsókninni.

En það á ekki að láta ofbeldið viðgangast með þögn eða eins og skilaboð fimmtára pilts eru: „Skilaboð til annarra - láta vita af þessu og ekki hika við það því ef maður lætur þetta gerast þá er maður í rauninni að segja að þetta sé allt í lagi,“ segir 15 ára drengur sem tók þátt í rannsókninni.

Þær segja að þegar börn tala um skelfingu og ótta þá er það alvöru skelfing og ótti. Þær hafi fundið það þegar þær unnu að rannsókninni, þrátt fyrir margra ára starf á þessu sviði, að vandinn er meiri en þær hafi gert sér grein fyrir. „Börn þrá ást og þurfa ást til þess að vaxa og dafna segir Margrét og bendir á að það vanti sárlega að gerðar séu frekari rannsóknir á þessu sviði. Það séu nægir til verksins en því miður er fjármagnið lítið.

Frekar verður fjallað um fundinn síðar í dag á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert