„Barnaskapur að halda annað“

mbl.is/júlíus

„Við verðum auðvitað að fylgjast með því sem er að gerast í nágrannalöndunum og bera okkur saman við þá löggjöf sem er til staðar á hinum Norðurlöndunum. Hvernig okkar löggjöf er í stakk búin til þess að taka á þessum vanda sem farið er að verða vart við í okkar nágrannalöndum auk þess að efla ennfremur samstarf við þessi ríki um það hvernig bregðast eigi við honum.“

Þetta segir Helgi Gunnlaugsson, prófessor við Háskóla Íslands og afbrotafræðingur, í samtali við mbl.is í tilefni af mati greiningardeildar Ríkislögreglustjóra á hryðjuverkahættu hér á landi. Mikilvægt er að mati Helga að hér á landi sé sambærileg löggjöf í þessum efnum og tíðkast annars staðar sem taki mið af þeirri þróun sem átt hafi sér stað á síðustu árum. Vísar hann til þess að fólk frá Vesturlöndum haldi til liðs við hryðjuverkasamtök eins og Ríki íslams og fremji jafnvel hryðjuverk þar líkt og gerst hafi meðal annars í Danmörku og Kanada fyrir skömmu síðan.

Skoða þarf með breytingar á lögum

„Við verðum að hafa yfirsýn yfir mál af þessu tagi og vera með löggjöf sem gerir mögulegt að meta hættuna af slíkum einstaklingum,“ segir Helgi. Hann nefnir í því sambandi til sögunnar ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur og síðan Hæstaréttar nýverið um að hafna gæsluvarðhaldi yfir tveimur hælisleitendum þar sem annar þeirra hafði lýst yfir stuðningi við Ríki íslams í yfirheyrslum hjá lögreglu og viðhaft hótanir um að myrða fjölda fólks ef honum yrði vísað úr landi. Þar hafi dómstólar einfaldlega verið að dæma í samræmi við gildandi löggjöf eins og þeim bæri að gera.

„Við þurfum einfaldlega að skoða hjá okkur hvort við þurfum að einhverju leyti að endurskoða þá löggjöf sem fjallar um mat á þessari hættu. Hvort breyta þurfi ákvæðum laga með einhverjum hætti sem kveður upp úr um mat á því hvenær einstaklingar teljast hættulegir með það fyrir augum að vernda almannahag og borgara landsins. Það mat þarf hins vegar að fara fram með mjög yfirveguðum hætti,“ segir Helgi. Fín lína sé þannig alltaf á milli þess að tryggja nauðsynlegt öryggi borgaranna og ganga ekki gegn borgaralegum réttindum þeirra. Þar þurfi að fara mjög varlega.

Ísland ekkert eyland í þessum efnum

Mikilvægt sé ennfremur að gera sér grein fyrir því að Ísland sé ekki eyland í þessum efnum segir Helgi. Hryðjuverk hafi verið framin í löndum allt í kringum okkur á undanförnum 10-20 árum. Bæði til að mynda í Noregi, Danmörku, Kanada, Bretlandi, Frakklandi og Bandaríkjunum. Heimurinn hafi skroppið mjög saman þegar kemur að samgöngum og samskiptum. Þeirrar tilhneigingar gætti hins vegar hér á landi að telja að Ísland sé á einhvern hátt fyrir utan þessa þróun. En staðreyndin sé hins vegar sú að landið sé ekkert eyland í þessum efnum.

„Stundum er talað um að þessi ríki hafi tekið þátt í hernaðaraðgerðum eða eigi sér sögu sem nýlenduveldi. En staðreyndin er hins vegar sú að Vesturlönd eru gjarnan sett undir sama hatt af slíkum einstaklingum. Við erum auðvitað hluti af Vesturlöndum og þessum elstu alþjóðastofnunum sem tengjast þeim og erum með sömu meginprinsip í hávegum. Þannig að við getum alveg lent í þessu eins og aðrar þjóðir. Það er í raun barnaskapur að halda annað,“ segir hann. Full ástæða sé til þess að taka þessi mál til endurskoðunar í kjölfar nýjustu atburða.

Mikilvægt að horfa heildstætt á málið

Skoða verði þessi mál í alþjóðlegu samhengi. Hvað nágrannaríki Íslands séu að gera í þessum efnum líkt og Danir, Norðmenn, Svíar og Bretar. „Reyna einhvern veginn að miða okkur við þau lönd sem við erum í nánustu samstarfi við og taka á þessu sameiginlega. Þetta er einu sinni flæðandi heimur. Það eru mjög tíðar samgöngur þarna á milli. Þess vegna tel ég eðlilegt að það væri samstillt átak á milli þessara nágrannaþjóða sem byggja á hliðstæðum gildum og við. En um leið að gætt verði að því að ekki verði gengið gegn þeim grundvallargildum sem samfélagið er byggt á.“

Fordæmi séu fyrir hendi hvernig bregðast megi við með yfirveguðum hætti segir Helgi og vísar þar bæði til viðbragða Norðmanna eftir hryðjuverkaárásirnar í Osló og Útey árið 2011 og árásarinnar á dögunum í Kaupmannahöfn. Þá sé ekki síður mikilvægt að horfa heildstætt á þessi mál og gera sér grein fyrir því að einstaklinga, sem kunni hugsanlega að fremja hryðjuverk, geti verið að finna víða. Ekki megi falla í þá gryfju að einblína of á ákveðna hópa í því sambandi. Enda sýni sagan að hryðjuverkamenn hafi komið úr ýmsum röðum í gegnum tíðina.

Helgi Gunnlaugsson prófessor.
Helgi Gunnlaugsson prófessor. mbl.is/Frikki
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert