Erlendir ferðamenn í háska

Björgunarsveitarmenn við Skaftárskála
Björgunarsveitarmenn við Skaftárskála

Björgunarsveitin Dalbjörg í Eyjafirði og Súlur, björgunarsveitin á Akureyri hafa verið kallaðar út og búa sig til brottfarar á Vatnahjalla eftir að boð bárust frá SPOT sendi á eða við Urðarvötn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu.

Vitað er að fjórir erlendir ferðamenn eru með viðkomandi sendi. Sveitirnar fara á tveimur snjóbílum og vélsleðum á staðinn. Komist þær hefðbundna leið upp á Vatnahjalla er ekki langt að fara en reynist sú leið ekki fær þarf að fara langar leiðir til að komast að ferðamönnunum.

Björgunarsveitir hafa verið að störfum víða um land í dag. Björgunarsveitin Blakkur á Patreksfirði sinnti ófærðaraðstoð á Mikladal fyrir hádegi og rýmingu húsa vegna snjóflóðahættu nú síðdegis. Tálkni á Tálknafirði aðstoðaði vegfarendur á Hálfdáni fyrir hádegi.

Í Vestmannaeyjum hefur Björgunarfélagið verið kallað út tvisvar sinnum, í annað skiptið þegar þakplötur losnuðu og hitt skiptið þegar þakkantur var að fjúka.

Sveitir í Vogum á Vatnsleysuströnd og Þorlákshöfn hafa einnig sinnt foktjónum í dag og Björgunarsveitin Jökull í Jökuldal aðstoðaði ökumann sem festi bíl sinn um 5 km utan Egilsstaða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert