Hvass vindur og hríð um land allt

Nokkur flug hafa verið felld niður í morgun. Hér má …
Nokkur flug hafa verið felld niður í morgun. Hér má sjá vélar Flugfélags Íslands í Reykjavíkurflugvelli í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Skil óveðurslægðar fara yfir landið úr suðvestri í dag. Henni fylgir hvass vindur og hríðarveður nánast um allt land. Suðvestanlands er vaxandi vindur og versnandi skyggni einkum á fjallvegunum, en á láglendi blotar um og fyrir hádegi og batnar skyggnið þá. 

Gera má ráð fyrir hríðarveðri meira og minna fram á kvöld á Hellisheiði, í Þrengslum og á Mosfellsheiði. Reikna má með hviðum á Kjalarnesi, 30-40 m/s og einnig undir Hafnarfjalli með morgninum.

Mjög hvass hliðarvindur á Reykjanesbraut í dag

Austur undir Eyjafjöllum og í Mýrdal hvessir mjög skömmu fyrir hádegi og þar verða hviðurnar allt að 40-50 m/s síðar í dag sem og í Öræfasveitinni þar sem einnig má gera ráð fyrir sandfoki.

Sérstök athygli er vakin á því að á Reykjanesbrautinni er reiknað með mjög hvössum hliðarvindi, á milli kl. 14 og 17 að telja. Veðurhæð þá 22-25 m/s og allt að 35 m/s í hviðum.

Röskun hefur verið á innanlandsflugi í morgun. Næst verður athugað með flug Flugfélags Íslands til Akureyrar og Ísafjarðar kl. 10.30 og flug Ernis á Bíldudal kl. 11.30. 

Veðurvefur mbl.is

Færð á vegum

Það er hálka og éljagangur á Hellisheiði og í Þrengslum en hálka og skafrenningur á Sandskeiði. Snjóþekja og einhver ofankoma víðast á Suður- og Suðvesturlandi. Þæfingsfærð og Óveður er á Kjalarnesi. Hvassviðri er með Suðurströndinni eins og undir Eyjafjöllum.

Á Vesturlandi er hálka og hálkublettir. Hálkublettir og óveður er við Hafnarfjall en þungfært og stórhríð er á Fróðárheiði.

Hálka eða snjóþekja er á vegum á Vestfjörðum og sumstaðar éljar og skefur á fjallvegum.

Á Norðurlandi er hálka, hálkublettir eða snjóþekja og víða skafrenningur. Snjóþekja og skafrenningur er á Öxnadalsheiði og skafrenningur og éljagangur mjög víða á Norðausturlandi.

Hálka og snjóþekja er á Austurlandi. Snjóþekja er á Fjarðarheiði, Vatnskarði eystra og Oddskarði en hálka á Fagradal. Hálka og hálkublettir eru með suðausturströndinni

Nokkuð blint er á Reykjanesbraut.
Nokkuð blint er á Reykjanesbraut. Skjáskot af vef Vegagerðarinnar.
Reiknað er með mjög hvössum hliðarvindi á Reykjanesbrautinni eftir hádegi …
Reiknað er með mjög hvössum hliðarvindi á Reykjanesbrautinni eftir hádegi í dag. mbl.is/RAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert