Ofbeldi gegn konum verði tekið alvarlega

Una Hildardóttir, ráðskona í Femínistafélagi Íslands, Anna Katarzyna Wozniczka formaður …
Una Hildardóttir, ráðskona í Femínistafélagi Íslands, Anna Katarzyna Wozniczka formaður W.O.M.E.N. - Samtaka kvenna af erlendum uppruna, og Fríða Rós Valdimarsdóttir varaformaður Kvenréttindafélags Íslands afhenda Ólöfu Nordal, innanríkisráðherra, ályktunina. Ljósmynd/Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir

Femínistafélag Íslands, Kvennaathvarfið, Kvennaráðgjöfin, Kvenfélagasamband Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Stígamót og W.O.M.E.N. – Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi fordæma ofbeldi gegn öllum einstaklingum og sérstaklega þeim sem eru í viðkvæmri stöðu félagslega, og hvetja yfirvöld til að taka ofbeldi gegn konum alvarlega og styrkja lög um nálgunarbann.

Þetta kemur fram í ályktun sem félögin afhentu Ólöfu Nordal, innanríkisráðherra, í innanríkisráðuneytinu klukkan 12 í dag. 

„Tímabært að lögin séu endurskoðuð“

Að sögn Önnu Katarzyna Wozniczka, formanns W.O.M.E.N. kom umræðan upp hjá félögunum fyrir nokkrum vikum, í kjölfar máls þar sem Hæstiréttur felldi úr gildi niður­stöðu Héraðsdóms Reykjavíkur sem staðfesti ákvörðun lög­reglu­stjór­ans á höfuðborg­ar­svæðinu um nálg­un­ar­bann á karl­mann sem grunaður er um að hafa ráðist á þáver­andi sam­býl­is­konu sína og játað hef­ur að dreifa af henni kyn­lífs­mynd­um. Fjallað var um málið í kvöld­frétt­um Stöðvar 2, og steig þoland­inn, Ju­lia­ne Fergu­son, þar fram. 

Hæsta­rétti þótti ekk­ert benda til þess að maður­inn muni beita hana lík­am­legu of­beldi, en Ju­lia­ne sagði úrskurður­inn reiðarslag, þar sem ger­and­inn hafi verið gerður að fórn­ar­lambi í mál­inu.

„Við höfðum verið að velta þessu fyrir okkur lengi svo við ákváðum að hittast og skrifa sameiginlega ályktun eða áskorun á ráðherra. Okkur finnst tímabært að þessi lög séu endurskoðuð, bæði svo þau séu gerð skýrari og líka til að styrkja stöðu þessara brotaþola,“ segir Anna. „Meðal þeirra eru mjög oft konur af erlendum uppruna og þær eru ekki með eins sterkt öryggisnet og oft ekki með fjölskyldu eða vini sem þær geta leitað til.“

Þrjú af fimm málum felld niður það sem af er ári

Í ályktuninni kemur fram að félögin fagni viðleitni hjá lögreglunni að láta reyna á ákvæði í lögum um nálgunarbann. Málum um nálgunarbann hefur snarfjölgað fyrir dómstólum í ár, aðeins á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs hafa 5 mál komið til úrskurðar Hæstaréttar, en 8 mál allt árið 2014, 7 mál 2013, 3 mál 2012 og 2 mál 2011.

Þó viljum við gera alvarlegar athugasemdir við meðferð þessara mála í Hæstarétti. Í síðasta mánuði felldi Hæstiréttur úr gildi þrjá úrskurði um nálgunarbann, og svipti þar með þrjár konur stjórnarskrárvörðum rétti sínum til að njóta réttar til friðhelgi einkalífs og heimilis.

Félögin telja að hagur og öryggi brotaþola eigi að vera í fyrirrúmi og með þessum dómum sé verið að senda röng skilaboð til fórnarlamba heimilisofbeldis.

Vonast til þess að geta hjálpað þessum konum

Anna segir mikilvægt að reglur séu gerðar skýrari og meira leiðbeinandi. Þá verði úrræði fyrir brotaþola skýrari. „Kvennaathvarfið gerir frábæra hluti en það á að vera síðasta úrræðið svo við erum að reyna að fyrirbyggja það frekar,“ segir hún.

Í ályktuninni kemur fram að dómarnir endurspegli skilningsleysi á anda laganna og óraunhæfar kröfur um líkur á endurteknu ofbeldi, loksins þegar lögreglan sýnir vilja til þess að beita lögum um nálgunarbann og láta á þau reyna. 

„Félögin telja að til þess að fleiri konum verði ekki gert að þola það sama og þessum þremur konum, sé brýnt að skerpa á ákvæðum laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Mætti t.d. gera það með breytingum á núgildandi lögum og lögð yrði áhersla á að í greinargerð með lögunum yrði leiðbeinandi reglur varðandi þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar við mat á nauðsyn nálgunarbanns.“

„Ég vona að með þessari áskorun getum við hjálpað þessum konum,“ segir Anna að lokum.

Sjö samtök standa að baki ályktuninni.
Sjö samtök standa að baki ályktuninni. Ljósmynd/Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert