Leita erlendra skíðamanna

Björgunarsveitir standa í ströngu víða um land.
Björgunarsveitir standa í ströngu víða um land.

Tveir erlendir skíðamenn eru í vanda í Álftavatnakrók. Sendu þeir neyðarboð eftir að þeir misstu tjald sitt og búnað og voru orðnir hraktir að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Björgunarsveitir á Suðurlandi hafa verið kallaðar út til leitar. Eru þær með staðsetningu mannanna en ekki er vitað hversu nákvæm hún er. Búast björgunarmenn við að vera komnir á staðinn á snjósleðum innan tveggja tíma ef vel gengur. 

Aðgerðir björgunarsveita fyrir norðan, þar sem leitað er erlendra ferðamanna er sendu neyðarboð í gegnum SPOT sendi, ganga þokkalega. Fyrstu hópar eru komnir á Vatnahjalla. Á fjallinu eru engin fjarskipti og því er ekki vitað um hvernig þeim miðar en vitað er að þeir fara hægt yfir enda aftakaveður á svæðinu. Spár gera ráð fyrir að veður gangi hratt niður þegar líður á nóttina. Verið er að senda bjargir úr Skagafirði á staðinn en veður hamlar för þeirra. Á áttunda tug manna taka þátt í aðgerðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert