Nefbraut mann með grjóthnullungi

Maðurinn virðist ítrekað ráðast á samborgara sína.
Maðurinn virðist ítrekað ráðast á samborgara sína. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Hæstiréttur hefur staðfest áframhaldandi gæsluvarðhald yfir 21 árs karlmanni sem grunaður er um mjög hættulegar líkamsárásir. Maðurinn hefur áður hlotið dóm, meðal annars fyrir fimm líkamsárásir.

Maðurinn hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 8. október síðastliðnum en hann er meðal annars grunaður um að hafa 27. september í fyrra veist að karlmanni og slegið hann í andlit með grjóthnullungi, þannig að hann hlaut tann- og nefbrot. Hann er einnig grunaður um fjórar aðrar líkamsárásir, þar af þrjár stórfelldar.

Líkamsárásirnar eru eftirfarandi:

  • Með því að hafa 16. mars 2013 slegið mann fleiri en einu höggi í andlitið með krepptum hnefa, með þeim afleiðingum að hann féll í götuna, og því næst sparkað í höfuð hans þar sem hann lá og telst brotið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

  • Með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 25. maí 2014, veist að tveimur stúlkum utan við á skemmtistað, að annarri þeirra með því að slá hana með krepptum hnefa í andlitið svo hún féll yfir sig yfir járnhandrið og á götuna, telst brot það varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga og að hinni með því að hafa slegið hana ítrekað í höfuðið með glerflösku, með þeim afleiðingum að hún hlaut skurð á gagnauga. Brotið telst varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

  • Með því að hafa sunnudaginn 25. maí 2014, veist að manni við [...] og slegið hann með kúbeini í höfuð og bak. Telst brotið varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Maðurinn var síðast dæmdur í júlí 2013 og hlaut hann þá 16 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir meðal annars fimm líkamsárásir.

Aðalmeðferð í máli mannsins fer fram 9. mars næstkomandi en honum er gert að sæta gæsluvarðhaldi til 16. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert