„Einhver séríslenskur samkvæmisleikur“

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég held að það sé ekki nokkur einasta leið að halda slíkri umræðu áfram án þess að háttvirtir þingmenn, sem hafa haft öll tækifæri til þess að kynna sér hvað felst í því að vera aðili að Evrópusambandinu, komi hreint fram og tali um hlutina út frá þeim skoðunum sem þeir hafa.“

Þetta sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins þar sem hann hrósaði Róbert Marshall, þingmanni Bjartrar framtíðar, fyrir að hafa í ræðu í þinginu í síðustu viku sagt hreint út að hann vildi ganga í Evrópusambandið. Guðlaugur sagði það grunninn að málefnalegri og upplýstri umræðu um sambandið að ræða málið á þeim nótum. Út frá afstöðu fólks til eiginlegrar inngöngu.

„Við erum hér, virðulegi forseti, í einhverjum séríslenskum samkvæmisleik sem gengur út á það að menn þykjast ekki kannast við hvað nákvæmlega felst í því að vera í Evrópusambandinu og tala síðan út frá því. Ég veit ekki til þess að þessi leikur sé viðhafður annars staðar. En hér kom háttvirtur þingmaður Róbert Marshall og talaði mjög skýrt,“ sagði hann.

Guðlaugur sagði varla við öðru að búast en að Róbert hefði myndað sér skoðun á jafn stóru máli og Evrópusambandinu í ljósi þess að hann hefði tekið þátt í umræðum um sambandið og verið lengi þátttakandi í stjórnmálum. Miklu betra væri að ræða málin út frá staðreyndum frekar en einhverju allt öðru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert