Aðstæður til afnáms hafta aldrei betri

Guðrún Johnsen, lektor í fjármálum við Viðskiptadeild HÍ og fundarstýra, …
Guðrún Johnsen, lektor í fjármálum við Viðskiptadeild HÍ og fundarstýra, Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, Sigríður Benediktsdóttir, hagfræðingur hjá Seðlabankanum og Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði. mbl.is/Árni Sæberg

„Ytri aðstæður verða líklega aldrei betri fyrir afnám hafta en einmitt nú,“ sagði Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði, á opnum fundi stjórnarandstöðunnar um afnám gjaldeyrishafta í Iðnó í dag.

Samfylkingin, Vinstri græn, Björt framtíð og Píratar efndu til fundarins, en losun haftanna er eitt stærsta viðfangsefni íslensks efnahagslífs um þessar mundir. Töldu flokkarnir það grundvallaratriði að fram færi málefnaleg umræða um málið fyrir opnum tjöldum. 

Frummælendur á fundinum voru ásamt Ásgeiri þau Sigríður Benediktsdóttir, hagfræðingur hjá Seðlabankanum og Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ. Fundarstýra var Guðrún Johnsen, lektor í fjármálum við Viðskiptadeild HÍ.

Fjármagnshöft ekki viðvarandi ástand

Sigríður sagði Seðlabankann telja efnahagslegar forsendur vera til staðar fyrir farsæla losun fjármagnshafta. Þar nefndi hún meðal annars að vextir erlendis væru í sögulegu lágmarki og vaxtamunur við Ísland verulega jákvæður. Viðvarandi innlendur hagvöxtur og verðbólga sé undir markmiði og viðvarandi viðskiptaafgangur og viðskiptakjör að batna. Auk þess sagði hún ríkisfjármálin í jafnvægi.

Benti hún á þjóðhagslegan kostnað fjármagnshaftanna, sem kemur meðal annars fram í takmörkun á áhættudreifingu, skekktri samkeppnisstöðu, bjöguðu eignaverði, beinum kostnaði við regluvörslu, sóun þegar fjárfestar leita leiða framhjá höftunum og minni fjárfestingum erlendra aðila innanlands.

Það sem standi í vegi fyrir losun hafta sé skammtímakrónueign erlendra aðila, sem var tæplega 300 milljarðar króna í lok síðasta árs, þung afborgunarbyrði erlendra lána, tafir við slit búa fallinna fjármálafyrirtækja og möguleg uppsöfnuð fjárfestingaþörf innlendra aðila.

„Fjármagnshöft eru ekki viðvarandi ástand og geta ekki verið viðvarandi ástand. Við þurfum að ákvarða hvernig hagkerfið á að vera eftir losunina.“

Þær varúðarráðstafanir sem þurfi að skoða fyrir losunina séu meðal annars þær að draga úr gjalddagamisræmi og minnka líkur á lausafjárþurrð í erlendum gjaldmiðlum og draga úr gjalddagamisræmi og minnka endurfjármögnunaráhættu í erlendum gjaldmiðlum.

Höftin ekki afnumin nema með þverpólitískri sátt

Ásgeir sagði aðstæðurnar til afnáms hafta heppilegar bæði út frá viðskiptajöfnuðinum og ytra umhverfinu. Sagði hann vöruskiptin á leið í mínus en þjónustuviðskiptin í blóma. Ferðaþjónustan sé orðin leiðandi og geti eflt viðskiptajöfnuðinn. „Það sem gerðist lengi var að peningarnir flæddu út í gegnum höftin. Nú eru peningar farnir að streyma inn í gegnum höftin svo það er töluvert flæði inn í landið og krónan farin að styrkjast.“ 

Þá varpaði hann fram þeirri spurningu hvort þjóðin vilji raunverulega afnema höftin. Með lítinn frjálsan gjaldmiðil sé ekki hægt að lofa stöðugleika. „Höftin gæða krónuna öryggi stórgjaldmiðils þannig að venjulegt fólk geti sinnt sínum málum án þess að vera ofurselt gengisáhættu.“

Ásgeir sagði fyrirætlanir stjórnvalda ekki nægilega skýrar, þar sem hver nefndin tæki við af annarri án þess að skila neinu af sér. „Höftin verða ekki afnumin nema með þverpólitískri sátt þar sem öll ábyrg stjórnmálaöfl taka sameiginlega ábyrgð á aðgerðunum.“

Sagði hann þó nokkur mál óútkljáð og nefndi þar snjóhengjuna - mikið magn fjármagns á Íslandi í erlendri eigu sem gæti verið flutt úr landi með snöggum hætti ef gjaldeyrishöftin væru afnumin sem gæti haft róttæk áhrif á gengi íslensku krónunnar, slitabúin, nýju bankana og lánshæfin.

Þá sagði hann mikilvægt að hefja umræðuna um framtíðina og líf án hafta. „Það er mikilvægt að höftin verði ekki afnumin nema við vitum hvað við ætlum að gera eftir það. Afnám hafta getur ekki verið leyniáætlun.“

„Losun hafta er viss línudans“

Ólafur Darri sagði vandann margþættan. „Við erum auðvitað í erfiðleikum með að endurfjármagna erlend lán þjóðarbúsins og erum að greiða þau niður hraðar en æskilegt getur talist.“

Þá sagði hann afgang af viðskiptum við útlönd ekki duga til að leysa vandann. „Samningar við kröfuhafa föllnu bankanna eru nauðsynlegir og trú á íslenskt efnahagslíf skiptir sköpum.“

Sagði hann efnahagshorfur um margt ágætar, en veikleikar séu til staðar. Nefndi hann undirliggjandi og langvarandi óstöðugleika, skort á trúverðugleika til hagstjórnar, skort á stefnumörkun til framtíðar og óvissu á vinnumarkaði.

„Losun hafta er viss línudans. Það tók okkur rúm sextíu ár að losa okkur við síðustu höft, og við þurfum að taka ákveðin skref í átt til losunar hafta. Skrefin mega þó ekki vera ákveðnari en svo að ógna fjármálalegum- eða efnahagslegum stöðugleika, mistök við losun hafta geta haft alvarlegar og langvarandi efnahagslegar afleiðingar.“

Þá sagði hann mikilvægt að sátt náist um málið, enda þurfi allir Íslendingar að búa við afleiðingarnar, hvort sem þær verða góðar eða slæmar.

Stjórnarandstaða spurði um kosti og ókosti afnáms hafta

Eftir erindin tók við fyrirspurnartími þar sem ýmsir veltu fyrir sér kostum og ókostum þess að afnema höftin. Spurði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um líf eftir höft og hvort varúðarreglur muni duga. 

Ólafur Darri sagðist trúa því að varúðarreglurnar verði það sem muni duga, en margir telji æskilegt að taka upp annan gjaldmiðil og þá þurfi ekki sérstakar varúðarreglur. Ásgeir tók einnig til máls í kjölfar spurningarinnar og sagðist hafa trú á því að krónan myndi styrkjast með tiltrú alþjóðar.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, varpaði einnig fram spurningu og sagðist vilja heyra hvað hægt væri að gera til að fá betri umræður í samfélagið svo upplýst ákvörðun yrði tekin. Ólafur Darri sagði að umræðan væri mikilvæg, en með afnámi haftanna færi Ísland úr bómull sem það er í sem gæti þýtt aukin verðbólga. „Ég tel æskilegra til lengri tíma litið að búa til svipaðan stöðugleika og þjóðirnar í kringum okkur og það þýðir aðeins eitt; evra,“ sagði hann. 

Sigríður tók einnig til máls og sagðist leyfa sér að efast um að bómullin væri eitthvað sem ákjósanlegt væri að vera í. „Höft skekkja efnahagslífið og það sem verra er, sumir græða og aðrir ekki. Þetta eru aðstæður sem við viljum ekki vera í,“ sagði hún.

Hægt er að nálgast erindi Sigríðar í heild á vef Seðlabankans.

Talað var um það á fundinum að krónan væri búin …
Talað var um það á fundinum að krónan væri búin að styrkjast. mbl.is/Júlíus
Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Árni Sæberg
Spurði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um líf …
Spurði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um líf eftir höft og hvort varúðarreglur muni duga. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert