Engin lausn að afnema gjöld

Ólöf Nordal innanríkisráðherra á Alþingi.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra á Alþingi. mbl.is/Ómar

Það er engin heildarlausn á háum fargjöldum í innanlandsflugi og fækkun farþega að fella niður gjöld sem ríkið leggur á þau þar sem þau eru lítill hluti af kostnaðinum. Þetta sagði Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, í sérstakri umræðu um innanlandsflug á Alþingi í morgun.

Valgerður Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hóf umræðuna en hún var formaður starfshóps um gjaldtöku í innanlandsflugi sem skilaði ráðherra tillögum á mánudag. Niðurstöður starfshópsins voru meðal annars þær að með því að fella niður farþega- og lendingargjöld og virðisaukaskatt á aðföngum gæti skilað um 1.700 króna verðlækkun á flugfargjöldum í innanlandsflugi að meðaltali.

Ráðherrann sagði að skýrsla starfshópsins væri nú til skoðunar í ráðuneytinu. Innanlandsflugið væri einn hlekkurinn í samgöngukerfi landsins og mikill kostnaður væri bundinn við það. Þann kostnað greiddu farþegar, flugrekendur og ríkið að einhverju leyti.

Óumdeilt sé að flugið sé lífsnauðsynlegur þáttur í samgöngum á landinu en umdeilt sé hvernig reka eigi kerfið og skipta kostnaðinum. Ólöf sagði það hafa komið sé á óvart hversu lítill hluti af kostnaðinum væri tilkominn vegna gjalda sem ríkið legði án þar sem mikið hafi verið gert úr því í umræðu um fækkun flugfarþega að gjöld ríkisins væru há.

Af þessari ástæðu sagði Ólöf að hún teldi að afnám þessara gjalda væri engin heildarlausn ein og sér. Óvíst væri að það myndi skila farþegum jafnvel þó fargjöldin lækkuðu eitthvað. Huga þyrfti að aðkomu ríkisins að málaflokknum. Aðkoma ríkisins væri nauðsynleg að einhverju leyti til að tryggja byggð á vissum svæðum á landinu.

Hún spurði hins vegar hvort að aðkoma ríkisins að innanlandsfluginu væri almennt nauðsynleg að öðru leyti og hvort innanlandsflugið ætti að geta þrifist á markaðslegum forsendum eða hvort það ætti að vera hlutverk ríkisins að styrkja uppbyggingu flugfélaga. Spurði hún jafnframt hvort að tækifæri væru í innanlandsflugi þegar litið væri til ferðaþjónustunnar.

„Hlutfall erlendra ferðamanna í innanlandsfluginu fer vaxandi og ég bind vonir við þennan vaxtarbrodd. Frekari markaðssetningu á innanlandsflugi sem hluta af heildarsamgöngukerfi þjóðarinnar tel ég mjög brýnt að litið sé á þegar farið er yfir framtíð innanlandsflugsins,“ sagði Ólöf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert