Sýna amerískan fótbolta frá fyrstu hendi

Skjáskot af Youtube

Framleiðsluteymið riotSE7EN birti á dögunum myndband sem sýnir amerískan fótbolta frá fyrstu hendi. Var GoPro-myndavél fest á hjálm Bergþórs Phillips Pálssonar, leikmanns liðsins Einherjar, og útkoman klippt saman í myndbandið. 

Bergþór, sem hefur spilað amerískan fótbolta síðan árið 2009, segist fyrst og fremst spila til gamans. „Ég sá auglýsingu um að nokkrir strákar væru að spila árið 2009 og mætti á æfingu. Þá var ég 14 ára gamall og ég hef spilað síðan. Svo fór ég í eitt ár í skiptinám til Bandaríkjanna og eftir það byrjaði ég að spila af meiri alvöru.“

50-60 spila amerískan fótbolta á Íslandi

Bergþór segir liðið hafa lagt mikinn metnað í íþróttina að undanförnu, með það að sjónarmiði að stækka. Í því samhengi nefnir hann fyrsta Íslandsmótið í íþróttinni sem haldið var í janúar, en aðeins um 50-60 manns stunda amerískan fótbolta hér á landi.

Liðið hittist á miðvikudögum klukkan 21:30, og eru allir velkomnir að sögn Bergþórs. Þá var nýlega farið af stað með ungliðaæfingar Einherja og fara þær fram á sunnudögum klukkan 20 í Risanum í Hafnarfirði. 

Aðspurður um það hvort mikil meiðsli fylgi því að stunda íþrótt sem þessa, svarar Bergþór neitandi. „Það eru minni meiðsli en maður heldur. Það er alltaf eitthvað, en við höfum að minnsta kosti ekki fengið upp nein alvarleg meiðsl.“

Hugmyndin að myndbandinu kviknaði í vinnunni

Nathan Taylor, sem stendur á bakvið riotSE7EN, segir hugmyndina af myndbandinu hafa kviknað í vinnunni, en þeir Bergþór vinna saman á Domino's. „Bergþór sagði mér að hann spilaði amerískan fótbolta svo mér datt í hug að fá að koma á leik og taka upp.“

Að sögn Nathans einblínir riotSE7EN á myndbönd af jaðarsportum. Þá segir hann markmiðið að breyta hugrenningartengslum fólks til orðsins „riot“ eða „mótmæli“ og gera þau jákvæð. Loks segir hann drauminn vera að ferðast um heiminn og taka upp myndbönd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert