Innkallanir ná ekki til 15% flotans

Það er undir bifreiðaeigendum komið að fylgjast með innköllunum, ef …
Það er undir bifreiðaeigendum komið að fylgjast með innköllunum, ef þeir hafa sjálfir flutt inn bílinn eða keypt hann utan frá gegnum aðila sem ekki hefur umboð fyrir viðkomandi bílategund. mbl.is/Ómar Óskarsson

Leiða má líkur að því að innkallanir er varða fólksbifreiðar á Íslandi nái ekki til um 15% bílaflota landsmanna. Þegar innkallanir eiga sér stað fá bílaumboðin lista yfir verksmiðjunúmer þeirra bifreiða sem vitað er um á Íslandi, en listarnir ná sjaldnast til þeirra bifreiða sem fluttar hafa verið inn af öðrum en umboðunum.

mbl.is sendi inn fyrirspurnir til átta bifreiðaumboða þar sem óskað var eftir svörum  um verkferla í kjölfar innkallana og um það hverja umboðin hefðu samband við; alla eigendur bifreiða sem innköllun næði til eða eingöngu þá sem keyptu bíl hjá viðkomandi umboði.

Umboðin sem um ræðir eru Brimborg, Askja, Hekla, BL, Toyota, Bernhard, Suzuki bílar og Bílabúð Benna. Öll svöruðu fyrirspurninni, í mislöngu máli, og sögðu innkallanir byggja á verksmiðju- eða VIN-númerum sem næðu aðeins til þeirra bifreiða sem vitað væri um á Íslandi.

Yfirleitt er ferlið þannig að eftir að innköllun berst umboði er verksmiðjunúmeralistinn keyrður saman við eigendaupplýsingar frá Samgöngustofu. Þegar búið er að fara yfir umfang verksins, panta varahluti og slíkt, er samband haft við eigendur, venjulega bréfleiðis. Þá er innköllunin oftar en ekki tilkynnt Neytendastofu.

Í svörum umboðanna kom fram að mikil áhersla er lögð á að ná í eigendur og ef bílarnir skila sér ekki inn er bréfasendingum fylgt eftir með símtali og jafnvel tilkynningu í ábyrgðapósti.

Brimborg og Askja segjast bæði hafa þann hátt á að ef bíll komi í þjónustu sem hefur verið fluttur inn af öðrum en umboðinu, láti þau framleiðanda vita að bifreiðin sé á Íslandi. Ef til innköllunar komi eftir það, birtist bifreiðin á verksmiðjunúmeralista framleiðanda.

Þá sögðust nokkur umboðanna, til að mynda Hekla og BL, geta flett upp útistandandi innköllunum eða þjónustuaðgerðum í kerfum sínum þegar bíll kæmi inn í þjónustu, óháð því hver flutti hann inn.

Í einhverjum tilfellum geta bifreiðaeigendur sem sjálfir hafa staðið að innflutningi bíla, eða hafa keypt bíla utan frá af öðrum en umboðunum, flett verksmiðjunúmeri viðkomandi bifreiðar upp á vefsíðu framleiðanda.

Innköllunum fer fjölgandi

Jón Trausti Ólafsson er framkvæmdastjóri Öskju og formaður Bílgreinasambandsins. Hann segir hlutfall nýskráðra notaðra bíla á Íslandi á bilinu 15-20% og leiða megi líkur að því að flestir þessara bíla hafi verið fluttir inn af einstaklingum eða aðilum öðrum en bifreiðaumboðunum.

Hann segir umræðu um öryggissjónarmið í ljósi þess að innkallanir ná ekki til allra bifreiða á götunum ekki hafa komið upp hjá Bílgreinasambandinu, en telur bifreiðaumboðin sinna innköllunum vel. Það sé gríðarlega mikilvægt.

„Innköllunum hefur farið fjölgandi undanfarin ár en ég held að það sé ekki vegna þess að gæði bílanna séu að versna, heldur þvert á móti að gæði bílaframleiðenda séu að aukast, og eftirlit og eftirfylgni með innköllunum,“ segir Jón Trausti.

Hann segir innkallanir af tvennum toga: öryggisinnkallanir og verkstæðisaðgerðir sem framkvæmdar eru þegar bílar koma í reglubundna þjónustu. Meginþorri innkallana varði endur- og betrumbætur á búnaði.

Jón Trausti segir að í ljósi þess að innkallanir nái aðeins til þeirra bifreiða sem vitað er um á Íslandi, sé afar mikilvægt að bifreiðaeigendur heimsæki viðkomandi umboð til að ganga úr skugga um að allar þjónustuaðgerðir séu unnar.

Hann segist þó ekki þekkja dæmi þess að slys hafi orðið á Íslandi sem rekja megi til þess að innköllun væri ekki sinnt. Þá segist hann ekki vita til þess að íslensk umboð hafi elt bíla til útlanda vegna innköllunar, né að íslenskum bifreiðaeiganda hafi borist tilkynning um innköllun frá söluaðila erlendis. Hann bendir á að fátítt sé að bílar séu seldir úr landi, þótt eitthvað hafi farið fyrir því í kjölfar hrunsins.

Segir eftirliti ábótavant

Í einhverjum tilfellum er því þannig háttað að umboðin geta aðeins flett upp innköllunum og/eða ábyrgðarviðgerðum fyrir bíla sem framleiddir eru fyrir Evrópumarkað. Þannig er þessu t.d. ólíkt háttað hjá þeim framleiðendum sem Askja hefur umboð fyrir.

Að sögn Jóns Trausta getur Askja í öllum tilvikum flett upp bifreiðum frá Mercedes-Benz, sama fyrir hvaða markaðssvæði þeir voru framleiddir, en hvað varðar bíla frá Kia Motors getur Askja aðeins flett upp bílum sem framleiddir hafa verið fyrir Evrópumarkað.

Jón Trausti bendir á að bílar sömu tegundar og týpu geti verið ólíkir eftir markaðssvæðum, þar sem ólíkar reglur gilda um staðla og eftirlit.

Hann segir það sína persónulegu skoðun að ekki sé nóg að gert hvað varðar eftirlit með bílum í umferðinni.

„Ég segi það fyrir mig, sem almennan einstakling í umferðinni, að mér finnst að það ætti að vera á ábyrgð einhvers að fylgjast með þeim bílum sem fluttir eru inn notaðir og mér finnst að Samgöngustofa ætti að vera lykilaðili í því. Ekki bara til að tryggja öryggi þess sem er á viðkomandi bíl, heldur annarra einstaklinga í umferðinni. Því bíll sem hefur ekki sinnt innköllun er hættulegur öðrum líka,“ segir hann.

Hvað varðar eftirlit með bifreiðum í umferðinni almennt, segir Jón Trausti að einnig þyrfti að hafa nánara eftirlit með tjónabílum sem tryggingafélögin selja til aðila sem séu ekki viðurkenndir viðgerðaraðilar.

„Að sleppa slíkum bílum í umferð; það er bara stórhættulegt mál. Og Samgöngustofa, eða samgönguyfirvöld, ættu að fylgjast með því, að tryggja öryggi almennings og vegarenda í umferðinni.“

Jón Trausti segist ekki vita til þess að bílar hafi …
Jón Trausti segist ekki vita til þess að bílar hafi verið eltir hingað vegna innköllunar, né að íslensk umboð hafi elt bíla út af sömu ástæðu. Fátítt sé að bílar séu fluttir úr landi. mbl.is/Ómar Óskarsson
Ef bifreið skilar sér aldrei inn til viðkomandi umboðs í …
Ef bifreið skilar sér aldrei inn til viðkomandi umboðs í þjónustu eða viðgerðir, veit hvorki umboðið né framleiðandinn að bíllinn er hér á landi. mbl.is/Styrmir Kári
Það er mat Jóns Trausta að Samgöngustofa ætti að hafa …
Það er mat Jóns Trausta að Samgöngustofa ætti að hafa eftirlit með þeim bílum sem koma notaðir til landsins. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert