Segir Isavia bola fólki úr stéttarfélögum

Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Þremur starfsmönnum var sagt upp hjá Isavia á þriðjudag. Samkvæmt Kristjáni Jóhannssyni, formanni og framkvæmdastjóra Félags flugmálastarfsmanna ríkisins, höfðu uppsagnirnar engan aðdraganda. og segist uggandi yfir viðhorfsbreytingu sem hann telur sig merkja hjá Isavia gagnvart þeim stéttarfélögum sem stóðu að verkfallinu vorið 2014 .

„Það leitar allt í þá áttina að nú eigi bara að kljúfa allt sem heitir samstarf milli stéttarfélaga til þess að koma í veg fyrir að hægt sé að búa til þessar aðstæður aftur. Maður veit auðvitað ekki hvort það tengist sérstaklega þessum þremur uppsögnum en þetta eru allt félagsmenn FFR,“ segir hann.

„Isavia virðist gera allt til að koma fólki úr þeim stéttarfélögum sem boðuðu verkfall. Stofnaðar hafa verið nýjar deildir innan fyrirtækisins og starfsmenn ráðnir með þeim skilyrðum að þeir fari í önnur stéttarfélög en þau sem fóru í verkfall gegn hinum hlutafélagsvædda ríkisrisa s.l. vor,“ segir Kristján.

Hann segir nýlegt dæmi um slíkt vera stofnun deildar sem annast fluttning á farþegum til og frá flugstöð að flugvélum. Þeim félagsmönnum sem sóttu um að komast í þau störf hafi verið sett það skilyrði að fara úr FFR.

Ásakanirnar tilhæfulausar

Í skriflegu svari Friðþórs Eydal, talsmanns Isavia, til mbl.is segir að uppsagnirnar þrjár hafi komið til vegna skipulagsbreytinga. „Breytingar hafa verið gerðar á skipulagi flugverndar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem miða m.a. að því að stytta boðleiðir og auka skilvirkni í rekstrinum. Við þessar breytingar leggjast af þrjú störf og bauðst þessum starfsmönnum öllum að gera samkomulag um starfslok sín og njóta þar með kjara umfram rétt sinn skv. kjarasamningum,“ segir í svarinu.

Friðþór segir að ásakanir um að félagsmenn FFR séu ekki ráðnir séu tilhæfulausar.

„Stafsmenn sem ráðnir hafa verið til farþegaaksturs til og frá flugvélum á Keflavíkurflugvelli eru ráðnir á grundvelli kjarasamnings Samtaka atvinnulífsins (SA) við Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur (VSFK), en sá samningur kveður á um forgangsrétt VSFK til starfa við farþegaakstur. Isavia er því bundið af þeim kjarasamningi. Umræddum starfsmönnum er frjálst að vera félagsmenn í FFR, en kjarasamningur VSFK mun áfram eiga við um ráðningarsambandið,“ segir Friðþór í svari sínu.

Hann bætir við að enginn kali sé af hálfu Isavia í garð stéttarfélaga sem nýttu löglegan rétt sinn til vinnustöðvunar síðastliðið vor, enda væri það fullkomlega óeðlilegt.

„Þvert á móti þá hafa forstjóri, aðstoðarforstjóri og framkvæmdastjóri mannauðssviðs félagsins átt fundi með formönnum FFR, SFR og LSS um ýmsa þætti í samstarfi aðila. Fundir þessir eru gerðir á grundvelli sérstaks samkomulags sem gert var samhliða kjarasamningi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert