Stutt í dóm í hefndarklámsmáli

Hefndarklámi er oftar en ekki dreift með farsímum.
Hefndarklámi er oftar en ekki dreift með farsímum.

Ríkissaksóknari hefur ákært mann fyrir að dreifa kynferðislegum myndum af fyrrum kærustu sinni, sem jafnframt var undir lögaldri. Málið var dómtekið fyrir tveimur vikum og er dóms því að vænta innan skamms.

Þetta kemur fram í umsögn ríkissaksóknara um frumvarp til laga um almenn hegningarlög en í því er lagt til bann við hefndarklámi. Ríkissaksóknari leggur til að frumvarpið verði ekki samþykkt að svo stöddu.

Samkvæmt því sem segir í frumvarpinu er felur hefndarklám í sér dreifingu eða birtingu á myndum eða myndskeiðum án leyfis þess sem á myndefninu er og sem er til þess fallið að valda viðkomandi tjóni eða vanlíðan eða er lítilsvirðandi fyrir hann.

Oft er um að ræða nektarmyndir eða bersýnilega kynferðislegar ljósmyndir eða myndskeið af einstaklingi.

Hefndarklám dregur nafn sitt af því að myndefninu er stundum dreift í hefndarskyni að loknu ástarsambandi en jafnframt getur verið um að ræða dreifingu myndefnis sem einstaklingur hefur sent í góðri trú.

Frétt mbl.is: Þegar refsað fyrir hefndarklám

Í umsögn ríkissaksóknara segir að nokkur slík mál séu til rannsóknar hjá lögreglu og afgreiðslu hjá ákæruvaldinu. „Að mati ríkissaksóknara tekur 233. gr. b. almennra hegningarlaga á því sem kallað hefur verið hefndarklám þegar þau tengsl sem ákvæðið áskilur eru fyrir hendi. Sé ekki um slík tengsl að ræða milli geranda og þolanda getur háttsemin varðað við 234. gr. laganna um ærumeiðingar, en þá er almenna reglan sú að sá sem misgert er við þarf að höfða einkarefsimál.“

Þá segir að ríkissaksóknari telji nauðsynlegt að kanna með nákvæmari hætti lagaumhverfi og dómaframkvæmd í nágrannalöndum okkar áður en ákvörðun verður tekin um breytingu á íslenskum refsiákvæðum hvað þetta varðar, m.a. í því skyni að kanna hvort litið sé á slík brot sem brot á friðhelgi og kynferðisbrot, og ef svo er, undir hvaða ákvæði háttsemin er talin falla. „Einnig er mikilvægt að sjá hvernig íslenskir dómstólar munu taka á þeim málum sem þegar eru komin til kasta þeirra og þá hvort nýtt ákvæði í kynferðisbrotakafla hegningarlaganna myndi raunverulega bæta réttarstöðu þolenda hefndarkláms.“

Frétt mbl.is: Þing­menn skilji al­var­leika hefnd­arkláms

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert