Hver og einn græðir á því að hrósa

Mikilvægt er að hrósa en hrósin þurfa þó að vera …
Mikilvægt er að hrósa en hrósin þurfa þó að vera verðskulduð. mbl.is/Árni Sæberg

Flestum finnst gott að fá hrós og að hrósa. Þrátt fyrir það eru Íslendingar að mati margra ekki nógu duglegir að hrósa og segja sumir að það sé einfaldlega ekki hluti af þjóðarsálinni. Á morgun verður alþjóðlegi hrósdagurinn haldinn hátíðlegur og eru landsmenn hvattir til þess að nýta tækifærið til að hrósa og fá hrós í staðinn.

„Þetta er í þriðja skiptið sem hrósdagurinn er haldinn hér á landi. En í til dæmis Hollandi, Noregi og Bandaríkjunum hefur hann verið haldinn síðustu tólf árin,“ segir Ingrid Kuhlman, framkvæmdarstjóri Þekkingarmiðlunarinnar en hún hefur kynnt Íslendingum fyrir alþjóðlega hrósdeginum síðustu ár.

„Viðbrögðin verið hafa verið mjög góð og fólk er ánægt með þetta. Á Facebook síðu alþjóðlega hrósdagsins í fyrra voru mjög margir að setja inn hrós bæði á sjálfan daginn en líka í nokkrar vikur eftir á. Þar var fólk að hrósa nágrönnum, vinum, búðum, sveitarfélögum og fleirum,“ segir Ingrid. „Ég fann að þetta hafði áhrif.“

Ekki í þjóðarsálinni að hrósa?

Aðspurð hvort að Íslendingar séu nógu duglegir við að hrósa segir Ingrid að kannanir sýni að svo sé ekki. „Ef við skoðum ánægjukannarnir sem vinnustaðir láta framkvæma sjáum við að fólk hrósar ekki nóg. Það er ekki gefin nógu mikil viðurkenning fyrir vel unnin störf. Þegar ég minnist á þetta á vinnustöðum er svarið oft að það að hrósa sé ekki „í þjóðarsálinni“ og heldur ekki partur af uppeldi Íslendinga.“

Ingrid segir að of mikil neikvæðni sé í íslensku samfélagi. „Það er stundum eins og við viljum bara sjá neikvæðu fréttina. Það er skemmtileg áskorun að taka bara eftir jákvæðu fréttunum eða jákvæðu punktunum í heila viku. Það er alltaf hægt að finna eitthvað jákvætt í öllu.“

Hún segir að fólk þurfi líka að vera duglegra við að hrósa einstaklingum beint. „Við hugsum oft um að hrósa, segjum öðrum jafnvel frá því þegar annar stendur sig vel en sá fær ekki að heyra það. Sá sem á hrós skilið á að fá það beint til sín,“ segir Ingrid.

Snýst um að gleyma ekki hrósinu í amstri dagsins

En hvað geta Íslendingar gert á sunnudaginn til þess að halda upp á hrósdaginn?

„Í fyrsta lagi að hrósa öllum þeim sem okkur þykir vænt um. Það er líka gaman að koma af stað hrósbylgju eins og t.d. á Facebook. Þá færðu hrós og hrósar öðrum og þetta berst áfram eins og bylgja. Ég held að okkur veiti ekki af jákvæðisbylgju,“ segir Ingrid.

„Margir spyrja mig af hverju þarf að hafa sérstakan dag til að hrósa. Þá svara ég að þetta snúist ekki bara um að hrósa 1. mars, heldur snýst þetta um að veita hrósi eftirtekt og vera meðvitaður um að gleyma því ekki í amstri dagsins,“ segir Ingrid og bætir við að hver og einn græði mikið á því að hrósa.

„Sá sem fær hrós líður vel eftir það og það eflir sjálfstraust. Jafnframt bætir það samskipti milli fólks og sá sem gefur hrós græðir líka á því. Það er mjög góð tilfinning að hrósa og viðkomandi fær það margfalt til baka,“ segir Ingrid. „Ef þú færð ekki hrós þarftu að líta í eigin barm og spyrja þig „Er ég nógu dugleg að hrósa?““

Hrósin þurfa þó að vera einlæg

Ingrid leggur þó áherslu á að hrósin séu einlæg. Segir hún t.d. að oft sé betra að hrósa fyrir dugnað heldur en fyrir gáfur. „Ef við hrósum til dæmis fólki sem fær góða einkunn í prófi og segjum „Vá hvað þú ert rosalega klár“ eru líkur á að viðkomandi treysti sér ekki í erfiðara verkefni því þá gæti komið í ljós að hann er ekki eins klár og fólk hélt. Þá er betra að hrósa fyrir dugnað því þá eru meir líkur á að viðkomandi takist á erfiðara verkefni því það er alltaf hægt að leggja sig fram.“

Að sögn Ingridar þarf einnig þarf að passa hrós til barna og að þau séu einlæg og ekki ofnotuð.

„Foreldrar þurfa að hætta að hrósa þegar að barn setur eitt strik á blað. Oft heyrir maður foreldri segja „Vá mikið er þetta flott hjá þér!“. Ég hef þá heyrt börn einfaldlega segja foreldrum sínum að það þurfi ekki hrós fyrir eitthvað sem það vandar sig ekki við. Það er mikilvægt að hrósa ekki of mikið því þá gæti hrósið orðið óverðskuldað.“

Alþjóðlegi hrósadagurinn er haldinn hátíðlegur á morgun. 

Hér er Facebook síða dagsins á Íslandi og hér er alþjóðleg heimasíða dagsins. 

Ingrid segir mikilvægt að hrósin séu einlæg.
Ingrid segir mikilvægt að hrósin séu einlæg.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert