Krónan klædd í gallabuxur

Heimildarmyndin Íslenska krónan verður frumsýnd í Bíói Paradís 7. mars næstkomandi. Leikstjóri er Garðar Stefánsson hagfræðingur en hann skrifaði einnig handritið ásamt Atla Bollasyni bókmenntafræðingi.

„Hagfræðin er oft þurr upptalning á orðum og staðreyndum sem fæstir hafa leitt hugann að og þess vegna þótti mér upplagt að fá bókmenntafræðing að verkefninu til að horfa á það úr annarri átt. Við köllum þetta gallabuxnahagfræði. Þeir sem tala um og útskýra hagfræði eru oftast nær í jakkafötum en við erum bara í gallabuxunum og útskýrum málið fyrir fólki á sama plani,“ segir Garðar.

„Við leggjum upp með hlutleysi og tökum ekki sjálfir afstöðu með eða á móti íslensku krónunni. Á hinn bóginn leiðum við fram fjölmörg sjónarmið og tölum við fólk sem hefur fastmótaðar skoðanir. Stjórnmálamenn, hagfræðinga, heimspekinga, fólk í atvinnulífinu, sjómenn, bændur og fólkið á götunni. Það gleymist stundum að almenningur hefur líka skoðanir. Þá er í myndinni sögumaður sem útskýrir hagfræðileg hugtök og annað slíkt á afar aðgengilegan hátt. Þessi mynd fjallar fyrst og fremst um krónuna sem samfélagslegt fyrirbæri,“ segir hann ennfremur.

Nánar er rætt við Garðar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Garðar Stefánsson kvikmyndagerðarmaður.
Garðar Stefánsson kvikmyndagerðarmaður. Árni Sæberg
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert