Heimsmeistarinn heimsækir Ísland

Magnus Carlsen mun heimsækja Ísland um miðjan mars.
Magnus Carlsen mun heimsækja Ísland um miðjan mars. AFP

Heimsmeistarinn í skák, hinn norski Magnus Carlsen, verður heiðursgestur Reykjavíkurskákmótsins í ár. Mun hann dvelja á landinu 13.-16. mars í boði mótshaldara en nákvæm dagskrá heimsmeistarans meðan á dvölinni stendur hefur enn ekki verið gefin upp. 

Að sögn Gunnars Björnssonar, forseta Skáksambands Íslands, mun Magnus án efa fylgjast sérstaklega með skákum föður síns, Henriks Carlsen, og helsta aðstoðarmanns síns, Jons Ludgvis Hammer, en þeir eru báðir meðal keppenda á mótinu. Þá telur hann líklegt að hann muni heimsækja leiði Fischers og láta sjá sig á mótsstað Reykjavíkurmótsins í Hörpu, árita bækur og gefa áhugasömum tækifæri á myndatökum.

Gunnar segir Magnus eiga góðar minningar frá Íslandi. Hann hafi fyrst slegið í gegn á heimsvísu þegar hann tefldi á Reykjavik Rapid-mótinu árið 2004, þá aðeins 14 ára, og gert eftirminnilegt jafntefli við Garry Kasparov. 

Í tilkynningu frá Skáksambandinu segir að sambandið bjóði heimsmeistarann og stigahæsta skákmann allra tíma hjartanlega velkominn til landsins. Þá fagnar sambandið því sérstaklega að sterkustu skákmenn heims skuli koma hingað ár eftir ár til að heimsækja Reykjavíkurskákmótið en skemmst er að minnast þess að Garry Kasparov var heiðursgestur þess í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert