Í úrslit í alþjóðlegri hönnunarkeppni

Úr fatalínu Elísabetar Karlsdóttur sem unnin er í samstarfi við …
Úr fatalínu Elísabetar Karlsdóttur sem unnin er í samstarfi við Eggert Feldskera.

Elísabet Karlsdóttir fatahönnuður er komin í úrslit í alþjóðlegu hönnunarkeppninni Remix í Mílanó en að samkeppninni standa International Fur Federation, IFF og ítalska Vogue. Í keppninni leika hönnuðir sér með skinn með nýsköpun í hönnuninni að leiðarljósi.
Keppendur voru í upphafi 64 talsins frá 35 löndum og Elísabet er ein af þeim 11 sem eru komnir áfram en lokakvöldið í keppninni er 4. mars og forseti dómnefndar verður aðalritstjóri Vogue International, Franca Sozzani.

Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskur hönnuður tekur þátt en verkefnið er styrkt af Eggerti feldskera sem hefur unnið með Elísabetu að framleiðslunni. Þess má geta að fatalína Elísabetar sem keppir til úrslita samanstendur af þremur alklæðnuðum en Íslendingar geta barið hönnunina augum á Hönnunarmars þegar hún verður til sýnis í verslun Eggerts feldskera.

Hönnun Elísabet er innblásin af sterkum kvenímyndum en hún hafði það að leiðarljósi að sýna feldinn í nýju samhengi, við götutísku og sportfatnað, og brjóta þannig upp oft fastmótaðar hugmyndir fólks um feldtísku. Til þess var íslenskt selskinn notað sem aðalefni, í bland við rauðref, hreindýraleður, tíbetlamb, ull og silki.

Sigurvegari Remix hlýtur meðal annars að launum verðlaunafé og svo þjálfun í framhaldinu undir leiðsögn virtustu feldskera heims.

Elísabet Karlsdóttir.
Elísabet Karlsdóttir. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert