„Verðum að girða okkur í brók“

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna
Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna

„Við verðum að fara að girða okkur í brók og framleiða meira,“ segir  Sindri Sigurgeirsson, formaður bændasamtakanna. Sindri var viðmælandi Sigurjóns M. Egilssonar í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun og ræddu þeir meðal annars skort á mjólk og nautakjöti. Benti Sindri á að íslenskir mjólkurbændur hefðu hreinlega svarað kallinu og framleitt meira þegar mjólkurafurðir tók að skorta. Þegar talið barst verndartollum á ákveðnum afurðum sagðist Sindri telja þá nauðsynlega.

„Ef við viljum tryggja vöxt og viðgang þessara greina hér heima fyrir vil ég að við höldum þessum verndartollum,“ sagði Sindri og bætti við að þegar nautakjöt eða aðrar vörur skorti væri hreinlega hægt að opna fyrir tollkvóta eins og verið hefur.

Lambakjötið þarfnast kynningar

Á meðan að mjólk og nautakjöt er skortir seldust um 1400 tonn af lambakjöti ekki milli ára að sögn Sindra. Segir hann ljóst að þörf sé á að markaðsetja vöruna með nútímalegri hætti.

„Á hverjum tíma þarf maður að aðlaga sig að markaðnum og hann er síbreytilegur,“ segir Sindri og bendir jafnframt á að lambakjöt sé hreint ekki jafn þekkt matvara erlendis og nautakjöt og kjúklingur. „Ég hef lent í því að kynna lamb úti í Whole Foods í Bandaríkjunum og fólk veit ekki einu sinni hvaða dýr er verið að tala um.“

Þó eru 30% íslensku lambakjötsframleiðslunnar flutt út. Sindri segir að erlendis sé markaður fyrir hluta lambsins sem áður gengu af hér á landi, svo sem garnir, vambir og slög.

„Það er orðið þannig að það eru nánast allir hlutar af lambinu sem eru nýttir og það er nánast bara mænan sem er eftir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert