90% barna verði læs í lok 2. bekkjar

Auka á lestrarfærni í borginni.
Auka á lestrarfærni í borginni. mbl.is/Rósa Braga

Náist markmið fagráðs Reykjavíkur-borgar um eflingu lestrar-færni munu 90% reykvískra grunnskólabarna ná lágmarksviðmiði í lestri í lok 2. bekkjar eftir fimm ár.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir dr. Freyja Birgisdóttir, formaður fagráðsins,  að þau börn sem verst standa í lestri hér á landi taki minni framförum en svipaðir hópar í öðrum Evrópulöndum.

Í erindi sem Freyja hélt á málþingi um lestrarundirbúning og lestrarnám á vegum Hafnarfjarðarbæjar í síðustu viku sagði hún m.a. að leggja þyrfti meiri áherslu á þjálfun í grundvallarfærni í lestri.

Hermundur Sigurmundsson, prófessor í lífeðlislegri sálfræði við háskólann í Þrándheimi í Noregi og HR, hélt einnig erindi á málþinginu. Hann segir slakan árangur íslenskra barna í lestri m.a. mega skrifa á reikning lestrarkennsluaðferða, of lítillar markvissrar þjálfunar og skipulags skóla. „Krakkarnir sem ekki er verið að sinna nógu vel heima – það eru þau sem líða mest. Þessum börnum verður að hjálpa. Þetta sýna norskar rannsóknir og það er líklega svipað hér,“ segir Hermundur. „Allt of víða er verið að nota lestrarkennsluaðferðir sem hafa ekki verið rannsakaðar og það er alveg með ólíkindum miðað við hvað lesturinn er mikilvægur.“ Hann bendir á niðurstöður nýrra rannsókna fræðimannsins Stanislas Dehaene innan taugavísinda, sem sýni fram á mikilvægi hljóðaaðferðar í byrjendakennslu í lestri.

Hermundur segir það há íslenska skólakerfinu hversu lítið sé gert hér af góðum rannsóknum á sviði menntunar. Freyja tekur undir þetta. „Við höfum ekki lagt næga áherslu á rannsóknir. Ég get ekki fullyrt um hvort aðferðirnar við lestarkennslu séu ein ástæðan fyrir lélegri lestrarkunnáttu. En það er ljóst að þær hafa ekki verið athugaðar nógu vel,“ segir hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert