„Eins konar“ lyklafrumvarp komið fram

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lagafrumvarp er til kynningar á vefsíðu innanríkisráðuneytisins þess efnis að kröfur sem ekki greiðist við nauðungarsölu fasteignar og falli utan markaðsvirðis hennar fyrnist á tveimur árum. Þetta kom fram í máli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Helga Hjörvar, þingflokksformanni Samfylkingarinnar, sem spurði að því hvort ríkisstjórnarflokkarnir ætluðu ekki að standa við fyrirheit um svokallað lyklafrumvarp.

Sigmundur sagði að orð Ólafar Nordal innanríkisráðherra um málið á dögunum hefðu verið misskilin. Hún hefði réttilega sagt að ekki væri unnið að málinu enda lægi fyrir frumvarp. Þar af leiðandi væri ekki unnið að því lengur í ráðuneytinu. Þingsályktun um lyklafrumvarp hefði verið samþykkt á Alþingi við upphaf núverandi þings en réttarfarsnefnd hefði gert athugasemdir við málið og sagt að það stangaðist á við stjórnarskrá að gera kröfur á lánastofnanir afturvirkt.

Við því hafi verið brugðist með fyrirliggjandi frumvarpi. Helgi fagnaði því að „eins konar lyklafrumvarp“ lægi fyrir. Vildi hann þó vita hvort þetta þýddi að ekki yrði hægt að gera fólk gjaldþrota á grundvelli krafna sem stæðu eftir þegar nauðungaruppboð hefðu farið fram. Sigmundur sagði að markmiðið með frumvarpinu væri að losa fólk undan slíkum eftirstæðukröfum á tveimur árum. 

Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert