„Gaman að fá íslensku krakkana hingað út“

Arna (standandi önnur t.v.) með íslensku krökkunum í sumarbúðunum í …
Arna (standandi önnur t.v.) með íslensku krökkunum í sumarbúðunum í fyrra. Til vinstri erAndrea hópstjóri.

„Ég hef alltaf verið með mikla útþrá, í raun alveg frá því ég man eftir mér. Ég var ekki nema sautján ára þegar ég flutti í fyrsta skipti frá Íslandi, þá til Danmerkur og bjó þar í nokkur ár. Síðan bjó ég í nokkur ár í Austurríki og ég hef ekki búið á Íslandi frá því ég var unglingur, nema þá eitt og eitt sumar,“ segir Arna Árnadóttir sem fluttist fyrir tuttugu árum til Tarifa á Spáni, þar sem hún býr enn.

„Ég kom hingað upphaflega til að heimsækja bróður minn sem var þá í arkitektanámi hér, en ég ílengdist og er hér enn, enda uni ég hag mínum vel. Tarifa er lítill bær á spænska vísu, nánast eins og sveitaþorp, hér búa ekki nema um sextán þúsund manns. Þetta er alveg á syðsta tanga Spánar, ekki langt frá Gíbraltar, ég horfi á Afríku út um gluggann hjá mér, enda ekki nema fjórtán kílómetrar yfir sundið.“

Læra spænskuna í gegnum leik og upplifun

Arna stofnaði spænskuskólann Al Andalus á Tarifa fyrir nokkrum árum.

„Núna hefur þetta þróast út í það að ég býð upp á nokkrar tegundir námskeiða og ferða. Í fyrra fór ég af stað með sumarbúðir fyrir krakka á aldrinum 14 til 17 ára og þá var ég eingöngu með íslenska krakka. En núna býð ég líka upp á þetta fyrir írska krakka og spænska krakka sem vilja læra ensku.“

Arna segir sumarbúðirnar standa yfir í tvær vikur í senn og að krakkarnir geri ótal margt skemmtilegt annað en að læra spænsku.

„Þau læra í raun spænskuna í gegnum leik og upplifun. Þau gista í sumarhúsum á svæði úti í skógi sem er ævintýri út af fyrir sig, þar er litskrúðugt dýralíf, froskar og fiðrildi, og það rennur á þarna í gegn og umhverfið býður upp á margt skemmtilegt. Aðstaðan er mjög góð og spænska kennd í aðeins tvo tíma á dag, en eftir það förum við með þau í allskonar útivist, klifur, brimbretti, gönguferðir, flakk til Marokkó og fleira. Hér er alltaf gott veður og við erum líka með kvöldvökur. Í fyrra voru íslensku krakkarnir skemmtilega ólík, mörg þeirra voru utan af landi og þau þekktust ekkert innbyrðis, en þau náðu öll vel saman og urðu bestu vinir. Það var virkilega gaman að fá þessa íslensku krakka hingað suðureftir.“

Matur og dans fyrir eldri

En ýmislegt fleira er í boði hjá Örnu, fyrir þá sem eru ungir og sprækir og mikið fyrir íþróttir er hægt að koma í spænskunám sem er blandað við allskonar sport.

„Það hentar vel hér við sólríka strönd, þá bruna nemendur á brimbrettum, ýmist venjulegum brettum eða „kite-windsurf“ og „paddle-surf“, sigla og klifra. Þessu til viðbótar er hægt að fara í köfun, fjallahjólaferðir, reiðtúra, tennis, hvala- og fuglaskoðun.“

Fyrir þá sem eru kannski aðeins eldri en þeir sem vilja bruna á brimbrettum er hægt að koma og læra spænsku en því til viðbótar fræðist fólk um spænska menningu.

„Þá er ýmist hægt að velja að vera í spænsku og flamengódansi, salsa eða tangó, nú eða blanda því saman; eða læra spænsku og læra í leiðinni um spænska matarhefð, fara á námskeið hjá alvöru kokkum og heimsækja víngerðarstaði. Í lok þess námskeiðs förum við á flamengósýningu.“

Líka sérsniðnar ferðir

Arna segist líka taka að sér að plana ferðir fyrir fólk út frá þeirra óskum.

„Þá get ég í samráði við viðkomandi búið til klæðskerasniðnar ferðir fyrir þá sem langar að gera eitthvað öðruvísi. Þetta er tilvalið fyrir vinahópa, skólahópa, jógahópa eða hverja sem er. Ég er vel sett að vera svona nálegt Afríku, það er ekkert mál að skreppa yfir til Marokkó, einn dag eða fleiri.

Arna segir að menningin og matarhefðirnar á því svæði sem hún býr á hafi orðið fyrir miklum áhrifum frá Afríku.

„Márarnir voru hér í Andalúsíu í sjö hundruð ár og það setur mikinn svip á allt, bæði menninguna og byggingarstílinn. Við sjáum það líka á fólkinu. Og gestir geta fengið alvöru upplifun í Cati-héraði, og kynnst þar hinni raunverulegu Andalúsíu, því þar er ekki kæfandi massa-túrismi. Spánn er svo stór og margt í boði. Hann er í raun eins og mörg ólík lönd.“

Þau Úlfur Árnason og Jóhanna Sigurðardóttir skemmtu sér vel.
Þau Úlfur Árnason og Jóhanna Sigurðardóttir skemmtu sér vel.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert