Opinber þjónusta ekki undir

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.

Þjónusta hins opinbera á Íslandi og grunnþjónusta við almenning munu ekki falla undir mögulegan TISA-samning um frjáls þjónustuviðskipti nái hann fram að ganga og verði Ísland aðili að honum. Þetta kom fram í máli Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra á Alþingi í dag í sérstakri umræðu um samningaviðræðurnar að frumkvæði Ögmundar Jónassonar, þingmanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.

Ögmundur sagði viðræðurnar sérstakar meðal annars fyrir þær sakir að þær skuldbindingar sem gengist væri undir yrðu óafturkræfar og hins vegar vegna leyndarinnar yfir þeim. Lýsti hann áhyggjum af áhrifum mögulegs samnings á velferðarþjónustu hér á landi og spurði ennfremur hvers vegna til stæði að kynna endanlegan samning fyrir Alþingi um leið og hann yrði undirritaður í stað þess að gera það áður en það væri gert.

Utanríkisráðherra sagði mikla viðskiptahagsmuni í húfi fyrir Íslendinga. Hvað viðræðuferlið varðaði hafnaði hann því að leynd hvíldi yfir því. Þvert á móti væri það opið og gegnsætt. Lögð hefði verið áhersla á virkt samráð við fagráðuneyti, stofnanir og hagsmunaaðila. Þar á meðal við verkalýðshreyfinguna. Þá væri öllum frjálst að senda inn ábendingar um sína hagsmuni.

Hvað samráð við Alþingi varðaði kallaði mögulegur samningur ekki á lagabreytingar og fyrir vikið þyrfti ekki að bera málið undir þingið. Engu að síður hefði verið ákveðið að hafa sama samráð við Alþingi og gert hefði verið með fríverslunarsamninga. Þannig yrði lögð fram þingsályktun þegar samningurinn lægi fyrir um samþykkt hans.

Ögmundur Jónasson alþingismaður.
Ögmundur Jónasson alþingismaður. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert